Yfirvöld í Guayaquil, stærstu borg Ekvador, hafa neyðst til að skipuleggja tvo nýja kirkjugarða og dreifa líkkistum úr pappa vegna COVID-19 faraldursins.

Um síðustu helgi fóru í dreifingu myndir af líkum sem vafin höfðu verið í plast og lágu á gangstéttum í 30 stiga hita.

Samkvæmt Telegraph eiga fjölskyldur í miklum erfiðleikum með að nálgast lík ástvina sinna sem hafa látist á sjúkrahúsum. Búið er að koma fyrir fjórum flutningabílum með kælibúnaði til að nota sem líkhús en ættingjum er ekki hleypt að til að bera kennsl á líkin. Talsverður ótti er í öðrum borgum Suður-Ameríku um að svipaðar aðstæður gætu komið upp þar.

Samkvæmt opinberum tölum eru tæplega fjögur þúsund tilfelli COVID-19 í Ekvador og 220 staðfest andlát, flest í Guayaquil. Lenin Moreno, forseti landsins, segir það fjarri raunveruleikanum.

„Við vitum að opinberar tölur yfir staðfest tilfelli eru allt of lágar, við þurfum að auka gagnsæi,“ sagði Moreno í ávarpi í vikunni. „Við höfum beðið mikinn álitshnekki á alþjóðavísu, ég bið ykkur afsökunar á því.“ Einu tölurnar sem hann gat gefið var meðaltal dauðsfalla á heimilum í Guayaquil, sem er um 30 á dag, en er nú komið upp í allt að 150. Erfitt sé að bregðast hratt við.

Yfirvöld voru fljót að setja á reglur um samkomubann en talið er að fjölda smita megi rekja til einstaklinga sem komu til landsins án þess að hafa fengið upplýsingar um að halda sig heima. Þá hafi rík hefð heimamanna að halda stórar veislur þegar fólk kemur heim úr ferðalagi haft mikið að segja.