Samkomulag hefur náðst á milli Félags eldri borgara (FEB) og eins kaupandans á íbúð við Árskóga sem hafði höfðað mál á hendur félaginu. Kaupandinn hefur nú fengið íbúðina afhenta og hefur aðfararbeiðnin sem hann hafði höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur verið felld niður.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá FEB en félagið vinnur nú áfram að því að ná sátt við hinn aðilann sem hafði höfðað samskonar mál. Greint var frá því í morgun að fyrirtöku í málunum, sem áttu að fara fram í héraðsdómi í morgun, var frestað vegna þess að útlit var fyrir að aðilarnir myndu ná sáttum sín á milli. FEB ákvað þá einnig að fresta því að leysa til sín íbúðir kaupendanna sem höfðu höfðað málin.

Áfram verður þá rætt við aðra kaupendur íbúða í Árskógum. Alls er búið að ræða við 53 kaupendur og hafa 39 þegar undirritað skilmálabreytingu um hærra kaupverð. Um hana snýst allt málið en eins og hefur verið greint frá krafði FEB kaupendurna um að meðaltali sex milljón króna hærra verð fyrir íbúðirnar en kveðið var á um í upprunalegum þinglýstum samningi.

15 eru þá enn að meta stöðu sína og er þá einn kaupandi með virkt dómsmál gegn félaginu. Ljóst er að það verði tekið fyrir í héraðsdómi á föstudaginn náist ekki sátt við hann fyrr. Enn á eftir að ræða við 11 kaupendur en stór hluti þeirra kemur á fund FEB í vikunni og næstu viku.

Þeir hafa það allir sameiginlegt að hafa verið með áætlaðan afhendingardag í september og því hefur ekki nein seinkun orðið á afhendingu þeirra íbúða eins og hinna. Enn er unið að því að klára framkvæmdir við annað húsið af tveimur sem FEB reisir í Árskógum. Búið er að selja 65 af þeim 68 íbúðum sem í boði eru í húsunum.