Klamydíutilfellum hefur fækkað um nærri 8 prósent á 4 árum. Einnig hefur dregið úr lekanda og HIV-smitum en tilfellum sárasóttar hefur fjölgað. Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata.

Klamydía er langútbreiddasti kynsjúkdómurinn. Tilfellin voru 530 á hverja 100 þúsund íbúa árið 2018 en hafði fækkað í 489 árið 2021. Lekandi er næstalgengasti sjúkdómurinn með 29 tilfelli á hverja 100 þúsund, en voru 34 árið 2019.

HIV-tilfellum hefur fækkað úr ellefu í sex á hverja 100 þúsund en sárasóttartilfellum fjölgað úr sex í þrettán. Mikill sárasóttarfaraldur hefur verið á Íslandi undanfarin ár meðal karlmanna sem stunda óvarið kynlíf með öðrum karlmönnum.

Í svarinu kemur fram að farið var í ýmsar aðgerðir sem lagðar voru til af starfshópi velferðarráðuneytisins í upphafi árs 2018.

Meðal annars hafa farið fram skimanir á sjúkdómunum fjórum í fangelsum landsins sem og að fyrirbyggjandi meðferð gegn HIV hófst á smitsjúkdómadeild Landspítalans. Það er svokölluð Prep-meðferð. Þá hefur nálaskiptaverkefni Landspítalans verið eflt.

Embætti landlæknis hefur eflt og samræmt fræðsluefni til almennings. Smokkasjálfsölum hefur verið komið fyrir í framhaldsskólum og kennsla um kynsjúkdóma og kynheilbrigði bætt.