„Við erum eiginlega hættar að prjóna vettlinga og reyna að byggja spítala fyrir prjónaða vettlinga,“ segir Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnar Hollvina Grensásdeildar.

Jólakaffi og basar Hollvina Grensásdeildar verður haldinn í Bústaðakirkju í dag frá klukkan 13-17. Þar verða til sölu ýmsar kræsingar og happdrættismiðar til styrktar deildinni ásamt því að hljómsveitin Strá-kurr tekur lagið.

„Jólakaffið er okkar leið til að safna fé fyrir deildina og með því fjármagni getum við keypt búnað sem vantar,“ segir Guðrún.

„Draumur okkar er að safna nægum peningum til þess að geta fengið ríkið til liðs við okkur í því að byggja við Grensásdeildina,“ segir Guðrún.

„Húsnæðið sem deildin er í er gjörsamlega glatað. Það verður bæði að bæta aðstöðuna og stækka deildina því að hún getur ekki tekið við öllum sem þurfa að komast inn. Þá liggur fólk á legudeildum í stað þess að byrja í endurhæfingu og á meðan minnka batahorfurnar,“ segir hún.

„Þetta er skemmtilegur dagur þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi og styrkt þetta mikilvæga málefni. Við vitum jú aldrei hvenær slysin verða eða hver er næstur,“ segir Guðrún.