Þeir eru aðeins 10 ára gamlir og eiga sér stóran draum. Draumurinn var raunhæfur og um helgina stóð til að taka stórt skref í þá átt að láta hann rætast. Þá dreymir um að verða Íslandsmeistarar í körfubolta í flokknum 10 ára og yngri. Nú um helgina fór fram eitt af fjórum stóru mótum vetrarins og drengirnir sem leika fyrir nýtt lið, sem heitir Aþena og spilar undir merkjum UMFK, var í B-riðli og hársbreidd að fara upp um riðil á síðasta móti.
Nú voru strákarnir staðráðnir í að komast í efsta riðilinn og gera síðan atlögu að sjálfum titlinum. En nú er sá draumur dáinn. Þeir fá ekki að vera með. Í ofanálag er liðið mjög líklega dæmt niður í neðsta riðilinn. Það er því útilokað fyrir strákana að ná takmarki sínu í vetur, að komast upp í A-riðil og standa þar stoltir á verðlaunapalli. Þau sem þekkja til ástríðunnar sem skapast hjá krökkum þar sem allt snýst um íþróttir gera sér grein fyrir sársaukanum að missa af því að klæðast treyjunni og keppa með vinum sínum fyrir hönd íþróttafélagsins. Veröldin hrynur, enda sátu margir drengjanna heima og felldu tár. Þeir skildu ekki af hverju þeim var meinuð þátttaka.
Umdeildur og elskaður
En af hverju situr þetta nýja og efnilega lið heima? Svarið er bæði einfalt og flókið en nauðsynlegt að fara nokkur ár aftur í tímann. KKÍ segir að starfsmaður liðsins hafi skráð drengina of seint til leiks. Foreldrar og forráðamenn liðsins segja ákvörðunina eiga sér lengri forsögu og KKÍ geri allt til þess að leggja stein í götu liðsins. Allt sé það gert vegna óvildar KKÍ í garð yfirþjálfarans, Brynjars Karls Sigurðssonar.

Brynjar Karl er fyrrverandi landsliðsmaður í körfuknattleik. Brynjar er bæði dáður en einnig umdeildur þjálfari sem hefur náð frábærum árangri með krakka. Hann er með sálfræðimenntun frá UAM í Bandaríkjunum og þá er hann einnig ráðgjafi fyrir atvinnumannalið í NBA, NFL og fjölda annarra liða. Hann bjó einnig til og hannaði Sideline-forritið sem hefur verið mikið notað af þjálfurum um allan heim.
Brynjar hefur þjálfað lið stúlknanna í 4 ár. Fyrst í Stjörnunni þar sem hann sagði upp eftir tveggja ára starf og var síðan hjá ÍR í tvö þar sem honum var vikið úr starfi. Brynjar hefur verið umdeildur fyrir þjálfunaraðferðir sínar þegar hann þjálfaði stúlknaliðið en ekki fengið sömu gagnrýni þegar kemur að því að þjálfa pilta. Þá hefur Brynjar verið gagnrýndur á samfélagsmiðlum fyrir hegðun á hliðarlínunni. Helst hefur hann verið sakaður um ljótt orðbragð og vera of kröfuharður við sína leikmenn en svo aðrir hrósað honum fyrir aðkomu hans að þeim liðum sem hann hefur stjórnað.
Brynjar var síðan ráðinn sem þjálfari hjá ÍR. 17 af 21 stúlkunum sem æfðu hjá Brynjari hjá Stjörnunni fylgdu honum í Breiðholt. Umgjörðin sem Brynjar bjó til í kringum ÍR liðið var sögð flottari en hjá mörgum úrvalsdeildarliðum í meistaraflokki.
Liðið varð Íslandsmeistari í minnibolta stúlkna 11 ára og sigruðu andstæðing sinn með yfirburðum í úrslitaleiknum 22-4. Við verðlaunaafhendingu varð nokkuð uppnám sem átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Stúlkurnar tóku við bikar og medalíu fyrir glæstan árangur. Skömmu síðar las ein stúlkan upp yfirlýsingu og mótmælti þeirri ákvörðun að neita liðinu um að keppa við drengi á sama aldri þann veturinn. Síðan létu þær medalíurnar falla á gólfið og skildu þær eftir ásamt bikarnum, en þessar sömu stúlkur höfðu í tvö ár talað fyrir daufum eyrum hjá KKÍ.
Forráðamenn KKÍ voru afar ósáttir með þessa ákvörðun en skiptar skoðanir voru í foreldrahóp stúlknanna sem varð til þess að hópurinn klofnaði í afstöðu sinni. Formaður KKÍ sagði sambandið líta málið alvarlegum augum. Þegar málið stóð sem hæðst sendu stúlkurnar í liðinu frá sér yfirlýsingu, hana má lesa í heild hér, þar sem sagði meðal annars:
„Kannski fórum við yfir strikið en nú vitum við hvar línan er. Markmið okkar er að breyta heiminum og þá þarf maður að fara yfir strikið. Við getum ekki breytt heiminum einar án Brynjars.“
Þá sagði einnig: „Við stelpurnar áttum hugmyndina um að ekki taka við verðlaununum. Þetta var ekki Brynjari að kenna og okkur líður vel saman og elskum Brynjar. Þið getið ekki tekið okkur í sundur. Okkur finnst óréttlátt að þið takið dætur ykkar úr íþróttinni sem þær elska mest. [...] Markmið okkar er að breyta heiminum og þá þarf maður að fara yfir strikið.“

Tveimur árum áður höfðu stúlknahópurinn og foreldrar þeirra ákveðið að vekja athygli á því að þeim var ekki lengur heimilt að keppa við drengi eftir að hafa gert það í tvö ár á undan með því að dansa, drippla og safna undirskriftum fyrir utan fyrsta mót vetrarins hjá drengjum á sama aldri.
Þá voru viðbrögð KKÍ einnig hörð og sendu núverandi og fyrrverandi landsliðsþjálfarar frá sér sameiginlega yfirlýsingu. Í þeim hópi var Snorri Örn Arnaldsson sem tók við því í vetur að stýra leikjaröðun á Íslandsmótum ungmenna. Snorri hefur ekki viljað ræða við frettabladid.is vegna málsins.
Stofnaði nýtt lið
Á endanum var Brynjar látinn taka pokann sinn hjá ÍR. En eins og áður fylgdi hluti hópsins þjálfara sínum. Brynjar stofnaði þá nýtt körfuboltalið sem fékk nafnið Aþena. Erfiðlega gekk að fá íþróttasal til að stunda æfingar og er félagið því með aðstöðu á Kjalarnesi. Þar er liðið í samstarfi við UMFK. Á Kjalarnesi höfðu ekki verið í boði að stunda körfuboltaæfingar um árabil. Nú æfa fjórir ungir drengir á svæðinu með liðinu. Aþena er hugsuð sem íþróttaakademía og stofnuð í kringum nokkur samfélagsverkefni þar sem markmiðið er að valdefla ungt fólk í gegnum íþróttir. Sérstök áhersla er lögð á að koma til móts við þarfir stúlkna og ungra Íslendinga af erlendum uppruna til þess að hjálpa þeim sjálfum að jafna leikinn í íþróttum, líkt og kemur fram á vefsíðu félagsins.

En frá því að liðið var sett á laggirnar hafa forráðamenn KKÍ, að sögn forsvarsmanna Aþenu, reynt að koma í veg fyrir með öllum ráðum að lið Brynjars nái árangri. Strax í upphafi vetrar hafi það verið ljóst. Fyrst hafi það gerst með þeim hætti að KKÍ hafi haldið fram fullum fetum að fjöldi yngri leikmanna í liðinu sem skráð var til leiks í flokki 11 ára færi gegn reglum KKÍ. Sendi KKÍ frá sér skeyti þar sem skráning var auglýst en ef félög vildu nota yngri leikmenn til að ná í lið væri nauðsynlegt að fylla út beiðni sem ætti að berast innan skráningarfrests. UMFK óskaði eftir að senda lið skipað tveimur ellefu ára leikmönnum og fimm leikmönnum sem voru árinu yngri.
KKÍ synjaði UMFK og það þrátt fyrir að ekki væri nokkra reglugerð um þetta að finna, enda ávalt tíðkast í mörgum íþróttagreinum hér á landi að krakkar geti spilað upp fyrir sig í flokki. Forráðamenn UMFK/Aþenu segjast hafa reynt að koma á fundi til að leysa málið en það hefði ekki gengið fyrr en að móti loknu. Þar með hafði liðið misst af sínu fyrsta móti. Á fundi síðar um málið varð KKÍ að falla frá þessum kröfum enda engin lög til þess efnis.

Þarna var fyrsta mótið farið í vaskinn. Krakkarnir mættu svo galvaskir til leiks í næsta 11 ára móti, í C-riðli og unnu þar alla leiki og komust upp í B-riðil.
Þá var komið að móti númer tvö í 10 ára flokki sem fór fram núna um helgina, en liði hafði keppt á fyrsta mótinu í B-riðli og var hársbreidd frá því að komast upp í A-riðil. Forráðamenn liðanna höfðu mánudag til miðvikudags í síðustu viku til að skila inn umsókn að til stæði að UMFK/Aþena ætlaði sér að taka þátt í mótinu. Vésteinn Sveinsson, sem sinnir því hlutverki hjá liðinu varð á og skilaði umsókn degi síðar, eða á fimmtudegi. Fullyrðir hann að ekki hafa verið búið að gera drög að leikjaniðurröðun.
Í kjölfarið var haft samband frá KKÍ og þeim tjáð að skráning hefði borist of seint og liðinu yrði meinuð þátttaka.
Með horn í síðu Brynjars
Blaðamenn Fréttablaðsins ræddi við Svavar Þór Guðmundsson en hann á son í liðinu. Drengurinn hefur verið niðurbrotinn síðustu daga að missa á mótinu. Þá var Vésteinn Sveinsson sem er sjálfboðaliði hjá liðinu og sér um skráningar einnig viðstaddur. Það skal tekið fram að skyldleiki er með blaðamanni og Vésteini. Fréttablaðið ræddi einnig við tvo fyrrverandi starfsmenn sem hafa raðað upp mótum fyrir KKÍ en þeir staðfestu báðir að þeir hafi oft rekið á eftir skráningum svo börn myndu ekki missa af tækifæri að keppa á mótum á vegum hreyfingarinnar.
Vésteinn skilaði eins og áður segir umsókn of seint inn, eða daginn eftir. Hann fullyrti að hann vissi til fjölda dæma þar sem skráning hefði skilað sér of seint. Einn heimildarmanna Fréttablaðsins sagði:
„Það kom aldrei til greina að láta sauðshátt einstakra fullorðinna einstaklinga skemma draum barnanna sem lifa fyrir það að taka þátt í mótum.“
Vésteinn fullyrðir að þegar send var inn tilkynning um þátttöku Aþenu hafi ekki verið búið að raða upp liðunum. Hann bætir við að hann telji Snorria Örn Árnason vera á móti Brynjari eins og hafi komið fram áður opinberlega. Þá sé það orðið á götunni að það eigi að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að liðið nái árangri. Í þessu valdatafli séu börnin þolendur sem skilja hvorki upp né niður í að fá ekki að taka þátt.
„Snorri Örn skrifaði undir yfirlýsingu og hefur fordæmt Brynjar opinberlega,“ segir Vésteinn sem kveðst miður sín að hafa skráð liðið til þátttöku degi of seint en telur fullvíst að ekki hafi verið búið að raða mótinu sjálfu upp. Vésteinn bætir við:
„Snorri var ekki mótsstjóri í fyrra. Ef menn gleymdu sér hringdi þáverandi mótsstjóri til að athuga hvort menn ætluðu ekki að vera með. Hann ætlaði ekki að láta einhvern þjálfara sem vinnur ekki vinnuna sína að koma í veg fyrir að börnin fái að spila. Þetta hefur gerst áður og þá hefur þessu verið reddað, svo krakkarnir fái að spila. Hver vill taka mótin af krökkunum? Nú er meira að segja búið að koma í veg fyrir að krakkarnir geti keppt um titla sem er markmið strákana en nú er búið að skemma veturinn fyrir þeim. Þeir geta ekki keppt um titilinn. Ekki að allt eigi að snúast um titla en það var markmiðið hjá þeim. Þetta er drullu hart.“
Aðspurður um hverju það sæti að KKÍ vilji að hans mati koma í veg fyrir framgang Brynjars og Aþenu sem svarar Vésteinn:
„Hann kom inn í samfélagið og er búinn að vera hækka ránna og benda á hluti sem eru ekki í lagi. Mikið af þessu er út af þessu stelpudæmi.“
„Það er verið setja heilt lið skipað 10 ára leikmönnum í 4 til 5 leikja bann og hugsanlega 15 leikja bann í efstu riðlunum. Fyrir gróf óíþróttamannsleg brot eru meistaraflokks menn kannski að fá þriggja leikja bann,“ segir Vésteinn.
Kveðst finna til með börnunum en vildi ekkert gera
Hannes S. Jónsson er formaður KKÍ. Aðspurður af hverju krökkunum hafi verið meinuð þátttaka heldur hann fram að slíkt hafi ekki verið gert. Skráning hafi borist of seint. Þegar honum er bent á að haft hafi verið samband daginn eftir og blaðamaður hafi fengið staðfest frá öðrum sem séð hafi um skráningu áður en Snorri hafi tekið við, að fjölmörg dæmi séu um slíkt hafi verið lagað til að tryggja að börn myndi ekki missa af mótum vegna mistaka hinna fullorðnu, svaraði hann að ákveðið hefði verið í vor að taka fyrir slíkt.
Kom aldrei til greina að veita liðinu undanþágu, svo krakkarnir gætu tekið þátt?
„Það var örugglega rætt,“ svarar Hannes og bætir við: „Málið er það að körfuboltinn hefur stækkað mjög mikið. Það hefur ekki verið hringt í félög í vetur. Á þinginu okkar í vor var þetta rætt og ákveðið að fara alveg eftir reglugerðum hvað þetta varðar og ákveði að taka hart á þessu og fara eftir reglugerðum. Við erum að segja nei við félög á hverjum einasta degi og ég verð að segja alveg eins og er, að ég undrast áhuga þinn varðandi þetta. Það er margt annað sem væri hægt að ræða.“

Aðspurður hvort Hannesi fyndist ekki of langt gengið að neita börnunum, sem höfðu beðið spennt, um þátttöku þar sem skráning hafi borist degi of seint svarar Hannes að öll félög hafi skráð sig og með þessu hefði þurft að teikna mótið upp á nýtt. Forsvarsmenn UMFK/Aþenu telja að leikjaröðun hafi ekki verið komin langt á veg þegar þetta var. Nú blasi við að liðið verði dæmt niður í neðstu deild.
Forsvarsmenn UMFK/Aþenu gagnrýna þetta og benda á að leikjaniðurröðunin hafi komið inn á heimasíðu KKÍ um klukkan ellefu á föstudagskvöldið fyrir rúmri viku síðan, daginn eftir að UMFK/Aþena sendi inn skráningu. Þá hefur Hannes sagt að mótaröðun hafi verið komin of langt til að breyta til en á þriðjudeginum, fimm dögum eftir að UMFK/Aþena sendir sína skráningu inn bætist lið Þórs á Akureyri inn í leikjaplanið. Forsvarsmenn UMFK/Aþenu segja:
„UMFK/Aþena voru með í fyrstu umferð þannig að það er ekki eins og það hafi verið að bæta liðinu við og skapa auka vinnu. Þetta er ekki flókið, eitt lið fer upp og eitt lið fer niður úr riðlinum.“
Telja Aþenumenn að svo virðist sem mögulegt hafi verið í tilfelli Þórs að raða mótinu uppá nýtt en ekki tekið tillit til liðsmanna Aþenu og voru krakkarnir sumir hreinlega grátandi að geta ekki tekið þátt sem og að missa af tækifærinu að geta mögulega orðið meistarar.
„Þó þau geti ekki orðið meistarar geta þau tekið þátt í Íslandsmótinu,“ svarar Hannes.
Finnst þér þetta góð vinnubrögð hjá ykkur og finnst þér þetta sanngjarnt gagnvart krökkunum?
„Mér finnst þetta ekki sanngjarnt gagnvart krökkunum?“
Af hverju lagið þið þetta ekki?
Svar Hannesar var þá aftur á þá leið að vinna við að raða upp mótinu væri of langt á veg komin. Forsvarsmenn Aþenu gagnrýna þau orð Hannesar að ákveðið hafi verið að taka harðar á því ef það kynni að fyrirfarast að skrá lið til leiks sem Hannes segir að hafi verið ákveðið á þingi í vor. Liðsmenn Aþenu benda á að þetta hafi verið ákveðið áður en liðið hafi verið stofnað og þeim ekki tilkynnt um breyttar áherslur.
Þá segja Aþenumenn að lið Sindra hafi sent inn skráningu fyrir fyrstu umferð í 11 ára flokki en gleymt að skrá sig inn í tölvukerfi sem notað er til að ráða leikjaniðurröðun. Halda þeim fram að KKÍ hafi haft samband við þá og þetta verið lagað. Fréttablaðið hafði samband við þjálfara Sindra, Halldór Steingrímsson, sem vildi ekki láta hafa neitt eftir sér og lagði á blaðamann.
Liðsmenn Aþenu segja á þessu að ljóst sé að þau sitja ekki við sama borð og önnur lið.
Sonur Svavars grætur
Svavar Þór á dreng sem hefur æft með liðinu. Fyrir um tveimur árum reyndu þau að finna íþrótt sem myndi henta honum. Um tíma stundaði drengurinn knattspyrnu og síðar karate en það var ekki fyrr en hjá Brynjari sem hann virkilega fann fjölina sína. Drengurinn hafði átt í nokkrum erfiðleikum í skóla og einn af þeim fjölmörgu krökkum sem er með ADHD. Eftir að hafa byrjað æfingar hjá Brynjari hafi margt breyst til betri vegar á fleiri sviðum en á körfuboltavellinum. Þar sé agi sem hentar drengnum og umgjörðin fagmannleg. Liðin er skipað krökkum héðan og þaðan og þá á einn leikmaður ættir að rekja erlendis. Allir eru velkomnir.
„Þú getur ekki trúað breytingunum sem hafa átt sér stað á hugarfari hans. Hann sér til dæmis veturinn fyrir sér eftir mótaröðinni á Íslandsmótinu og gat ekki beðið eftir að taka þátt. Ég tel að þeir hafi átt góða möguleika á að vinna þetta mót miðað við framfarirnar hjá þeim,“ segir Svavar en með tímanum hefur hann farið að trúa að öfl innan hreyfingarinnar ætli sér að stöðva framgang liðsins með öllum ráðum.
„Einu fórnarlömbin í þessu öllu saman eru krakkarnir, sonur minn er heima grátandi,“ segir Svavar en drengurinn hafði talið niður í að mótin hæfust. Svavar bætir við:
„Skólakerfið, það hentaði honum ekki en að sjá sem foreldri að honum líði vel og síðan verða vitni að sársaukanum sem fylgir því að missa af mótinu, ég gæti farið að gráta með honum og það allt út af smámunum og óvild. Þetta eru bara krakkar og það er verið að eyðileggja drauma þeirra en auðvitað hefðu þeir getað reddað þessu fyrir krakkana en þeir völdu að gera það ekki.“
Fleiri foreldrar sem eiga börn í liðinu hafa svo tjáð sig á samfélagsmiðlum og gagnrýnt KKÍ harðlega.
Menn í bakherbergjum
Krakkarnir bera virðingu fyrir starfinu og sama er uppá teningnum hjá þjálfurum að sögn Svavars. Hugsað er um leikmenn út frá þörfum hvers og eins og metnaður er mikill.
„Krökkunum eru kenndir mannasiðir og þú þarft ekki að vera bestur eða góður. Það sem farið er fram á að þú sýnir framfarir og þeim líði vel. Þjálfunin er í heimsklassa og að menn í einhverjum bakherbergjum séu að taka gleðina af 10 ára barni. Það er bara klikkun í mínum augum,“ segir Svavar og bætir við: „Þetta er fyrsta Íslandsmótið hans og hann er búinn að æfa í tvö ár fyrir þetta. Markmiðið, þó það sé ekki aðalatriðið, er einfalt. Hann langar bara að verða meistari.“