Undanfarin ár hafa farið í byggingu þessa fallega húss sem þau hjón hafa lagt mikla natni í og unnið af ástríðu. Sagan af þessu húsi þeirra er einstaklega skemmtileg og pínu lýsandi fyrir lífið sjálft þegar maður hleypir draumum sínum af stað.

Linda segir frá því þegar hún bjó í íbúð fyrir neðan þessa fallegu útsýnislóð í Leirvogstungu.

„Í gönguferðum mínum gekk ég oft framhjá þessari lóð og hugsaði með mér hversu lánsamt fólkið sem ætti hana væri.“
Svo sá hún lóðina auglýsta til sölu, náði að kaupa hana og upphófst mikið ferðaleg í að skapa fjölskyldunni fallegt heimili sem svo sannarlega tókst.

Eldhúsið prýðir stór og falleg Kvik innrétting frá versluninni Rafha en borðplatan er frá Granítsmiðjunni. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Svo sá hún lóðina auglýsta til sölu, náði að kaupa hana og upphófst mikið ferðaleg í að skapa fjölskyldunni fallegt heimili sem svo sannarlega tókst.

Heimilið stendur á hæð í Mosfellsbæ þaðan sem útsýnið er magnað. Þar sem sjórinn og fjöllin blandast borgarljósunum. Hjónin unnu úr eigin óskum í samstarfi við arkitekt og náðu þannig fram sinni sýn á rými heimilisins með fjölskylduna í hug. Stílhreint, rólegt og fágað andrúmsloft einkennir heimilið.

Við enda eyjunnar má glitta í arininn sem njóta má bæði úr eldhúsi og stofu. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Það tók nokkur ár að koma þessu öllu saman og er augljóst á tali við Lindu að þolinmæðin var í fyrirrúmi svo útkoman yrði sem best. En á móti eru allir staðir heimilisins úthugsaðir eftir þeirra óskum og draumaheimilið varð til.

Linda Ben er þekktur fagurkeri og hefur skapað sér nafn í matar- og kökugerð. Þar er hennar aðal vettvangur uppskriftarvefurinn www.lindaben.is og þessa dagana kemur jafnframt út glæsileg bók hennar: Kökur.

Bókin Kökur er stútfull af girnilegum uppskriftum. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Það er lýsandi fyrir dugnað Lindu að auk þess að baka allt fyrir bókina, tók hún einnig allar ljósmyndirnar. Linda hefur komið sér upp vinnustofu á heimili sínu þar sem hún getur gripið til hinna ýmsu hluta til að stílisera myndatökurnar og þarf því ekki að fara út úr húsi við vinnu sína.

Linda stíliserar og myndar allt sjálf og hefur komið sér upp góðri aðstöðu heima fyrir. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Linda hefur útbúið góða vinnuaðstöðu heima fyrir og hér má sjá hluta verkfæranna sett upp á smekklegan hátt. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Það kemur ekki á óvart að uppáhaldsstaður Lindu á heimilinu er eldhúsið. Stór og falleg innrétting frá kvik innréttingum prýðir það og ekki skemmir lifandi útsýnið þar sem sjá má fjöllin, borgina og reiðmenn ríða hjá, allt út um eldhúsgluggann.

Stílhreint baðherbergið er rúmgott og frístandandi baðkarið frá Tengi nýtur sín vel. Blöndunartækin eru einnig frá Tengi og sturtuglerið frá Glerborg. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Stílhrein fegurð einkennir heimilið. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari