Starfsmannabústaðir 1.600 starfsmanna sem unnu að byggingu álversins á Reyðarfirði fyrir 17 árum grotna nú niður með tilheyrandi áhrifum á ásýnd og umhverfi.

Alcoa Fjarðaál ber ábyrgð á hreinsun svæðisins og hefur ítrekað endurnýjað heimildir fyrir notkun á svæðinu og framlengt hreinsunarfrest í tæpa tvo áratugi. Alcoa Fjarðaáli, Heilbrigðiseftirliti Austurlands og fulltrúa bæjarfélagsins ber ekki saman um hvort kvartanir hafi borist vegna málsins.

Vindurinn næðir gegnum húsakynnin og græn myglugró koma sér fyrir á skrifborðinu innan um gardínustangir og brotinn gifsvegg.

Íbúi í Fjarðabyggð tók myndir af svæðinu á þriðjudag og þar má sjá raftæki á víðavangi, brotnar rúður, 17 túbusjónvörp með tilheyrandi snúrum liggjandi utandyra, dúka og naglaspýtur á víð og dreif um svæðið. Að sögn íbúans liggur staðurinn við vinsælt útivistarsvæði og gönguleiðir íbúa á Reyðarfirði. Íbúinn lýsir aðkomunni eins og að nútíma eyðibýli. Húsnæðið hafi verið sett upp í flýti og enn megi sjá rúmstæði, dýnur, heila fataskápa, skrifborðsstóla og sjónvörp.

„Þetta eru tímabundnar starfsmannabúðir sem voru settar upp þegar álverið var byggt. Það hefur verið samkomulag milli [Fjarðabyggðar og] Alcoa sem er handhafi húsanna og eða réttinda sem þarna eru, um að búðirnar verði fjarlægðar,“ segir Gunnar Jónsson, bæjarritari í Fjarðabyggð, sem svarar í fjarveru Jóns Björns Hákonarsonar bæjarstjóra.

Raftæki og rusl liggur á víð og dreif innan húss sem utan. Hér sést gólfefni, gler, einangrun og listar úr plasti, spónaplötur og ljósabúnaður.

Aðspurður hvort 17 ár séu ekki fulllangur frestur, svarar Gunnar játandi. „Þetta er allt komið á tíma og þessar búðir áttu að vera farnar. Þetta hefur gengið hægar en við nokkurn tímann reiknuðum með.“

Hann segir bæjarfélagið ekki hafa beitt sektum. „Þetta hefur verið tekið fyrir hjá okkur með reglubundnum hætti en þeir hafa bara endurnýjað umsókn sína um framlenginguna á stöðuleyfi. Við höfum alltaf afgreitt það og samþykkt það, en alltaf sett kröfur um að það verði sett einhver endadagsetning á að þær verði fjarlægðar. En það hefur ekki gengið eins og 17 árin bera með sér.“

Hvað umhverfishliðina snertir segir Gunnar Heilbrigðiseftirlit Austurlands bera ábyrgð á því eftirliti. Spurður hvort athugasemdir hafi borist frá Heilbrigðiseftirlitinu síðustu árin út af stöðunni svarar hann: „Nei, þær hafa alla vega ekki borist til mín og ég man ekki til þess að það hafi verið. Okkar hluti snýr að því að þeir fjarlægi þetta og þeim hefur verið gefinn tími til þess, með þessum framlengingum.

Lára Guðmundsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Austurlands, segir að Heilbrigðiseftirlitinu hafi borist kvartanir. „Já. Ég man mjög vel eftir máli frá árinu sem leið þar sem var verið að kvarta undan umgengni á lóðinni og gerð krafa um að þetta yrði hreinsað,“ segir hún.

Sautján túbusjónvörp liggja í hrúgu fyrir utan bústaðina innan um snúrur og glerbrot.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir er fjölmiðlafulltrúi Alcoa Fjarðaáls. „Við erum með leyfi til að vera þarna áfram og erum að greiða stöðuleyfi af þessu.“

Spurð um vanefndir af hálfu fyrirtækisins hvað hreinsunarstarfið varðar svarar hún: „Það varð svolítið flækjustig í samningum. Það voru aðilar búnir að taka að sér að hreinsa þetta í burtu og fengu ítrekað frest til að gera það. Svo endaði það þannig að við riftum þeim samningum og tókum svæðið yfir aftur af því að þetta gekk ekki sem skyldi að koma þessu í burtu.“

Dagmar Ýr áætlar að það hafi verið um 2018 en getur ekki staðfest það nákvæmlega að svo stöddu. „En það var fyrir Covid sem við tókum þetta yfir aftur. Það er búið að vera hreinsunarstarf í gangi síðan þá. Við höfum þurft að fara og taka til á svæðinu og höfum verið að gera okkar besta í að koma þessu í burtu. Það eru bundnar vonir við að þetta verði komið allt í burtu og það er ekki mikið eftir,“ segir Dagmar Ýr. „Það er búið að vera jafnt og þétt í gangi síðustu misseri að flytja einingarnar í burtu. Það er orðið mjög lítið eftir miðað við það sem var,“ segir hún.

Fréttablaðið hefur undir höndum ljósmyndir af svæðinu sem sýna til að mynda 17 túbusjónvörp á víðavangi. Aðspurð út í það svarar Dagmar Ýr: „Ég hef ekki heyrt af því. Við höfum ekki fengið ábendingar um það til okkar. En það hefur gerst að verktakar hafa verið að sækja einingar og ekki skilið nógu vel við og þá höfum við þurft að fara inn á svæðið og hreinsað það,“ segir hún. „Og það hefur verið gert alltaf þegar við höfum fengið ábendingar um það,“ segir fjölmiðlafulltrúinn.

„Yfirleitt hefur Fjarðabyggð látið okkur vita þegar það hafa komið kvartanir og við höfum farið inn og hreinsað til,“ segir hún.

„Ef ástandið er þannig verður það gert um leið. En við erum með verktaka í því að flytja þessar síðustu einingar í burtu. Þetta á að klárast núna í haust og við munum skila svæðinu til Fjarðarbyggðar samkvæmt samningi sem var gerður um hvernig á að skila svæðinu til baka. Við höfum ekki verið látin vita af því að það sé slæm umgengni á svæðinu akkúrat núna.“

Ekki náðist í Einar Þorsteinsson, forstjóra Alcoa Fjarðaáls, við vinnslu fréttarinnar.