Ökumaður bíls sem ekið var um Norðurárdal ók í gegn um kindahóp síðastliðið haust og drapst meirihluti fjárins. Þetta kemur fram í starfsskýrslu slökkviliðs Borgarbyggðar fyrir síðasta ár.

„Boð frá lögreglu um að slökkviliðið kæmi þeim til aðstoðar og spúlaði þjóðveginn neðan við bæinn Dýrastaði í Norðurárdal en þar hafði ökumaður sem var mikið að flýta sér ekið inn í kindahóp og drepið meirihluta hans, slökkviliðsmenn frá Bifröst fóru og þrifu veginn,“ segir í skýrslu slökkviliðsins um verkefni dagsins þann 12. september.