Sam­tök at­vinnu­lífsins segja sótt­varna­reglur barna og ung­menna vera víðs fjarri stefnu ís­lenskra stjórn­valda um að lifa með veirunni. Skóla­starf hefst af fullum krafti á næstunni og segir fram­kvæmda­stjóri SA að reglurnar muni valda upp­námi á næstu vikum, þar sem þúsundir barna munu lenda í sótt­kví auk bólu­settra for­eldra og syst­kina.

„Innan fárra vikna er fyrir­séð að skóla­hald í leik-, grunn- og fram­halds­skólum lamist með reglu­legu milli­bili. Fjöldi launa­fólks missi vikur úr vinnu. Starf­semi fyrir­tækja og stofnana verður skert í ein­hverjum til­vikum. Lítil fyrir­tæki munu loka. Ein­yrkjar sitja uppi full­bólu­settir en tekju­lausir og ein­kenna­lausir í sér­ís­lenskri sótt­kví barna,“ segir Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri SA, í pistli sem birtur var á vef samtakanna í dag.

Fordæmi annarra landa afskrifuð

Vísað er til þess að á Norður­löndunum og í Bret­landi sé fyrir­komu­lagið allt annað. „Þar hafa stjórn­völd lagt kapp á að lifa með veirunni—ekki bara í orði heldur á borði,“ segir Hall­dór og vísar til þess að á Norður­löndunum sé sótt­kví barna ekki beitt með sama hætti auk þess sem skóla­starf er sam­kvæmt til­tölu­lega hefð­bundnu fyrir­komu­lagi, þar sem allir gæta þó að sér.

Þá sé full­bólu­sett og ein­kenna­laust fólk ekki sent í sótt­kví á Norður­löndum, jafn­vel þó það sé beint út­sett. Allir eru þó með­vitaðir um að veiran sé á ferli en mæta því öðru­vísi, til að mynda með sjálfs­prófum og per­sónu­bundnum sótt­vörnum.

„Við­kvæði sótt­varnar­yfir­valda á Ís­landi er að vísinda­menn og læknar sem fara fyrir sótt­vörnum á öðrum Norður­löndum og í Bret­landi séu ekki að meta á­hættuna rétt. En þau geri það hins vegar sjálf. Það er drambs­full nálgun að telja að allir aðrir mis­skilji stöðuna hrapa­lega og vaði í villu og svíma,“ segir Hall­dór og vísar til þess að for­dæmi til að mynda frá Noregi og Dan­mörku séu af­skrifuð al­gjör­lega.

Ekki hægt að halda því bara fram að allir aðrir hafi rangt fyrir sér

Hall­dór segir að um sé að ræða hrópandi ó­sam­ræmi sem skapar spurningar sem ekki hefur verið svarað en í öðrum löndum skili á­hættu- og hags­muna­mat allt annarri niður­stöðu en hér á landi. Þar er að skapast sam­fé­lags­leg sátt um að það þurfi að standa vörð um fleira en sótt­varnir, til að mynda and­lega heilsu, menningar­líf og fé­lags­legar þarfir.

„Það mis­ræmi sem nú er uppi þurfa sótt­varnar­yfir­völd að skýra að fullu með öðrum rökum en að halda því fram að allir aðrir hafi rangt fyrir sér.“