Sigurgeir Svanbergsson synti yfir Kollafjörð til styrktar Einstökum börnum í síðustu viku. Sundið tók alls níu klukkutíma en þrekraunin gekk ekki áfallalaust fyrir sig. Fylgdarbátur bilaði þannig að hann svamlaði um í rúmar 90 mínútur sem varð til þess að hann missti af straumunum sem hefðu getað hjálpað.

Þá hélt hann engu niðri og saup kók og borðaði nammi-trítla á hálftímafresti til að fá svolitla orku. Svona mætti áfram telja. En hann komst í mark og endaði nánast á stofugólfinu hjá mömmu sinni sem býr í Bryggjuhverfinu, þar sem sundið endaði.„Ég ætlaði að synda frá Reyðarfirði til Eskifjarðar en það fylltist allt af marglyttum fyrr en venjulega þannig að ég þurfti að hætta við og færa mig suður og fann þessa leið því hún er svipað löng,“ segir Sigurgeir.

Í fyrstu gekk allt eins og í sögu. Leiðin var greið en þá bilaði fylgdarbáturinn. Mótorinn hreinlega gaf sig. „Ég var því svamlandi um í rúmar 90 mínútur þar sem við biðum eftir öðrum bát. Á tímabili vissum við ekki hvort einhver væri að koma til að gera við eða hvort nýr bátur kæmi. Ég synti bara í hringi við tangann hjá Kjalarnesi á meðan og vonaðist eftir að einhver kæmi.“

Sigurgeir segir að stórvinir hans hjá Hafsporti hafi svarað kallinu og komið með báta til að halda leiðangrinum áfram. „Ég elti nýja bátinn og þriðji báturinn bættist svo við undir lokin, sá sem hafði dregið þann bilaða í land. Það var því fjölmenni þegar ég steig í land,“ segir Sigurgeir.

Þegar hann var búinn að vera í sjónum í um sex klukkutíma gafst maginn upp og allt sem hafði áður farið niður fór upp. „Ég hélt engu niðri og til að fá einhverja orku tók ég tvo sopa af kóki á hálftíma fresti. Bætti svo við trítlahlaupköllum. Þrjóskaðist þannig í gegnum síðustu klukkutímana.“

Hann segir að þegar hann byrjaði að sjá Bryggjuhverfið hafi hann fengið strauminn í fangið og synt og djöflast en ekkert komist áfram. „Ég fór ekkert áfram í um 40 mínútur. Það var ekkert sérstakt,“ viðurkennir Sigurgeir.Hann steig á land í Bryggjuhverfinu, gjörsamlega búinn á sál á líkama.

„Þegar ég kom í land hneig ég eiginlega niður og þurfti svolítið að átta mig á að þetta væri búið. En ég endaði þetta hjá mömmu sem býr þar, sem var gott.“ Sigurgeir viðurkennir að það hafi tekið um tvo daga að jafna sig en hann sé orðinn góður og fleiri hugmyndir um að gera eitthvað fyrir Einstök börn séu strax komnar á teikniborðið.

„Vinir mínir eiga einstök börn og mér fannst þetta tilvalið að láta sundið skipta máli. Ég á eftir að gera eitthvað meira. Það er eitthvað byrjað að hugsa fleiri plön.“

Áfram er hægt að heita á Sigurgeir hér