Alma D. Möller landlæknir hyggst leggja það til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um að draga úr valkvæðum skurðaðgerðum til að létta á álagi á Landspítalanum.

„Ég reikna með að ráðherra fallist á þessa tillögu og að þær taki gildi á þriðjudag,“ sagði Alma á upplýsingafundi almannavarna í dag. Fundurinn var með öðru sniði í dag en áður en hann hófst var Landspítalinn með sérstakan blaðamannafund vegna neyðarstigs á spítalanum eftir hópsmit sem kom upp á Landakoti.

77 smit í tengslum við Landakot

Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar og formaður far­sótt­ar­nefnd­ar Land­spít­ala, greindi frá því á fundinum í dag að samtals 77 smit hefðu greinst í tengslum við hópsmit á Landakoti, alls 49 sjúklingar og 29 starfsmenn á Landakoti, á Reykjalundi og Sólvöllum á Eyrarbakka.

Vegna álags á spítalanum vegna hópsmitanna er Landspítalinn kominn á neyðarstig. Landlæknir vill draga úr svokölluðum ífarandi aðgerðum og greiningarrannsóknum sem gætu leitt til innlagna á spítalanum.

Þurfa að sinna alvarlega veiku fólki

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagðist búast við auknu álagi á gjörgæslu og almennt á spítalanum og væri það ástæða þess að farið var á neyðarstig.

„Við þurfum í rauninni að beina allri okkar orku á því að sinna fólki sem veikist af COVID og tryggja það að við einangrum þessi smit,“ sagði Páll. „Við þurfum að sinna öðru alvarlega veiku fólki, annað verður að bíða og fara til hliðar á þessum hápunkti.“

Lagði hann þess vegna til að öðrum aðgerðum, sem ekki eru nauðsynlegar, verði frestað þar til síðar þegar Landspítalinn er betur í stakk búinn til að taka á móti fleirum.

Einnig stendur til að uppfæra áætlun um hvernig skal bregðast við þegar Landspítalinn getur ekki lengur tekið við sjúklingum.

Páll Matthíasson, forstjóri LSH.
Mynd/Ernir Eyjólfsson