„Við erum að skoða hraðalækkandi aðgerðir um alla borg og ég vonast til að þær verði samþykktar fyrir áramót,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Borgin bað íbúaráðin um umsögn um hámarkshraðaáætlun nú í haust og er nú unnið úr athugasemdum.

Tillögurnar snúa að því að lækka hámarkshraðann inni í hverfum úr 60 niður í 50 og 50 niður í 40 eða 30. Sem dæmi er lagt til að hraðinn á Borgavegi í Grafarvogi fari úr 50 niður í 40 og í Vesturbergi í Breiðholti niður í 30 úr 50 kílómetra hámarkshraða.

Talsvert hefur verið rætt um frumvarp Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns utan flokka, um lækkun hámarkshraða. Sigurborg var honum innan handar við smíði frumvarpsins. „Sú tillaga snýr að lagarammanum, að götur í þéttbýli séu ekki sjálfkrafa með 50 kílómetra hámarkshraða, heldur 30. Svo líka að það sé á ávallt á forræði sveitarfélaga að ákvarða hámarkshraða í þéttbýli, ekki Vegagerðarinnar,“ segir hún. „Nágrannaþjóðir okkar eru að lækka viðmiðunarhraðann í þéttbýli, síðan er það sveitarfélaga að rökstyðja breytingar á því.“