Öll þau sem fjallað er um í myndinni byrjuðu í dragi af ólíkum ástæðum,“ segir kvikmyndagerðarkonan Monika Konarzewska. Heimildarmynd hennar, No Makeup, sem fjallar um dragsenuna á Íslandi, verður sýnd á Gauknum annað kvöld.

„Fyrir þau öll er drag leið til að tjá sig en fyrir sum er drag vinna, fyrir önnur er það þerapía og fyrir enn önnur er það hrein og bein skemmtun,“ segir Monika.

Drag er það kallað þegar fólk klæðist fötum og sýnir látbragð sem talið er tengjast gagnstæðu kyni þess á einhvers konar sýningu eða gjörningi. Monika hefur sjálf einu sinni farið í drag og segir það hafa verið virkilega skemmtilegt.

„Ég varð að prófa,“ segir hún. „Einn listamaðurinn í myndinni hvatti mig til þess og það var geggjað. Ég varð svo ólík sjálfri mér og það varð til þess að ég leyfði mér einhvern veginn að gera allt aðra hluti en ég er vön,“ bætir Monika við.

„Ég varð svo ólík sjálfri mér og það varð til þess að ég leyfði mér einhvern veginn að gera allt aðra hluti en ég er vön.“

„Í dragi fær fólk nefnilega tækifæri til að tjá sig á annan hátt en það er vant. Skapa sinn eigin karakter og haga sér eins og það vill. Fara á móti normum og gildum samfélagsins,“ segir Monika.

„Fólk sem fer í drag er auðvitað bara að lifa sínu lífi eins og öll önnur en í draginu fær það tækifæri til að vera hver sem það vill, skapa sér þennan karakter sem er það sjálft en samt ekki. Lifa fantasíulífinu sem listamaðurinn skapar.“

Monika Konarzewska ólst upp í Póllandi en bjó á Íslandi í tvö ár. Hún segir að hér á landi sé greinilegur munur milli landanna þegar kemur að réttindum hinsegin fólks.
Mynd/Krystian Trzpil

Fáfræði skýring fordóma

Monika segir að í gegnum tíðina hafi fordómar beinst að dragi og fólki sem stundar það. Skýringuna telur hún vera fáfræði og ástæðuna fyrir því að hún kaus að fjalla um drag í myndinni segir hún vera þá að koma upplýsingum til sem flestra.

„Ég er fædd og uppalin í Póllandi sem er kaþólskt land og þar er trú stór hluti af samfélaginu,“ segir Monika. „Í trúnni er fólk sannfært um það hvernig fólk á að vera og hvernig það á ekki að vera, fjölbreytileikinn er ekki mikill. Öll eiga að trúa á sama guðinn og hafa sömu kynhneigð. Annaðhvort ertu góð/ur eða vond/ur og það er að mínu mati af því að fólk veit ekki betur og leitar sér ekki upplýsinga,“ bætir hún við.

„Auðvitað þekki ég fullt af fólki sem er trúað og fagnar fjölbreytileikanum en hitt er algengara, að ef þú ert öðruvísi þá sé reynt að breyta því eða bjarga. Við vitum hvernig þetta hefur verið í gegnum tíðina, samkynhneigð hefur verið litin hornauga og það sama má segja um hinseginleikann almennt, það þarf að fræða fólk um það hvernig raunveruleikinn er,“ segir Monika.

Dragdrottningin Faye Knús er ein þeirra sem fjallað er um í heimildarmyndinni No Makeup. Hún hefur slegið í gegn í hér á landi.
Mynd/Aðsend

Ísland eftirsóknarvert

Öll þau sem koma fram í myndinni eru innflytjendur sem búa á Íslandi og eru hluti af dragsenunni hér. „Mig langaði að sýna það að til Íslands kemur fólk frá öllum heimshornum til þess að fá að vera það sjálft í friði,“ útskýrir Monika.

Hún segir að fyrir mörg þau sem koma frá löndum þar sem réttindi hinsegin fólks séu ekki í hávegum höfð sé léttir að vera á Íslandi. „Auðvitað er það hér eins og alls staðar annars staðar, hér er fordómafullt fólk en munurinn hér og til dæmis í Póllandi er að hér hefur hinsegin fólk réttindi og stjórnvöld beita sér fyrir réttindum þeirra.“

Monika bjó á Íslandi í tvö ár og segist vel geta hugsað sér að flytja hingað aftur. „Mér var tekið ótrúlega vel hérna og upplifði sjálf það sem ég sagði hér að framan, ég gat verið frjáls,“ segir hún.

„Á Íslandi virðist vera pláss fyrir nánast öll þó að alltaf sé hægt að gera betur og ég gleymi því aldrei þegar ég sá Pride á Íslandi í fyrsta sinn. Ég grét þegar ég sá allt fólkið sem var komið til að sýna hinseginleikanum samstöðu. Það eru ótrúleg forréttindi að fá að búa á svona stað,“ segir Monika.

Myndin verður sýnd á Gauknum annað kvöld en hér má sjá eina drottninguna labba yfir Tryggvagötuna á leið sinni á Gaukinn.
Mynd/Aðsend

Hún segist vona að þrátt fyrir það bakslag sem hefur orðið víða þegar kemur að réttindum hinsegin fólks þá sé hatrið að dvína. „Ég held og vona að með komandi kynslóðum breytist sá hugsunarháttur að kyn eða kynhneigð skipti einhverju máli, hatrið þarf að deyja út af því að það er ekki lausnin, fjölbreytileiki er lausnin,“ segir Monika.

„Hlýnun jarðar er til að mynda raunverulegt vandamál sem við þurfum að laga öll saman, það getum við ekki gert ef þar fá ekki öll pláss. Heimurinn er að minnka og við erum að færast nær og nær hvert öðru og á endanum þurfum við jafnvel að sameinast á minni landsvæðum. Við getum ekki gert það full af hatri og fordómum,“ segir Monika.

No Makeup er sýnd á Gauknum í Tryggvagötu klukkan 20 annað kvöld.