Drægni rafbíla er sífellt að aukast eins og marka má af reglulegri athugun Norðmanna. Fyrir vikið er drægnikvíði að minnka.

Þetta staðfestir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), sem er nýkominn frá Noregi þar sem hann fylgdist með keppni á milli margra tegunda rafbíla um hver þeirra kæmist lengst á einni hleðslu við vetraraðstæður.

Norðmenn eru komnir allra þjóða lengst í rafbílavæðingu og leiða, að sögn Runólfs, allar kannanir á sviði framþróunar og gæðaeftirlits hvað þessar bílategundir varðar. Liður í því er að halda keppni í drægni bílanna tvisvar á ári, að sumri jafnt sem vetri.

Að þessu sinni tóku rafbílar frá 29 framleiðendum þátt í keppninni sem hófst í Osló og rataði allt upp í þúsund metra hæð norður af Lillehammer inn í landi, en meðalkuldinn á leiðinni var fimm stiga frost og fór mestur í nítján gráðu gadd.

„Skemmst er frá því að segja að Tesla S bar sigur úr býtum og komst 530 kílómetra á einni hleðslu við þessar aðstæður,“ segir Runólfur.

Drægni rafbíla eykst sífellt, líka við kuldalegustu vetraraðstæður eins og nýleg könnun í Noregi vitnar um.
Fréttablaðið/Getty

„Þarna kepptu líka tólf kínverskar bílategundir sem við höfum ekki séð á Íslandi og stóðu sig afskaplega vel,“ bætir hann við. „Öll framþróun á þessu sviði er að verða æ hraðari.“

Hann segir þessa drægnikönnun einnig hafa náð til þess hvað hleðslustöðvar ná að afkasta miklu.

Þessar kannanir Norðmanna séu gerðar í þágu neytenda svo þeir viti upp á hár hvað þeir eru að kaupa af bílaumboðunum. „Keppnin er raunveruleikatékk. Hún sýnir hvað bílarnir geta,“ segir Runólfur.

Það hafi einnig vakið athygli hans hversu mikil og víða uppbygging hleðslustöðva er í landinu. Markaðurinn sé að verða mjög stór. Á síðasta ári voru 87 prósent nýskráðra bíla í Noregi hreinir rafbílar.

„Það hreinlega borgar sig að bæta við æ fleiri hleðslustöðvum í Noregi,“ bendir Runólfur á og metur það svo, að þótt Íslendingar komi næstir á eftir Norðmönnum í rafbílavæðingu, en séu enn þá langt á eftir þeim í rafbílafjölda.