Dr. Silja Bára Ómarsdóttir, dós­ent við stjórn­mála­fræðideild Há­skóla Íslands og formaður Jafn­rétt­is­ráðs, er nú stödd í New Hamsphire á forvali Demókrata og hefur þegar hitt marga af frambjóðendum flokksins, þar á meðal Bernie Sanders og Elizabeth Warren.

„Mig hefur lengi langað til að upplifa forvalið í New Hampshire, sem er ein mesta pólitíska veisla sem hægt er að ímynda sér,“ segir Silja Bára í samtali við Fréttablaðið. Hún segist hafa ákveðið að skella sér í ferðina með vini sínum Jóni Gunnari, sem hefur álíka mikinn áhuga á bandarískum stjórnmálum og hún.

„Við fórum á framboðsfundi með þremur frambjóðendum á mánudag, Sanders, Warren og Buttigieg. Warren var sú eina sem tók sér tíma til að heilsa öllum sem vildu á leiðinni út af fundunum, hinir frambjóðendurnir fóru út bakdyramegin. Eftir að hlusta á þau og sjá í samskiptum við kjósendur er ég mjög hrifin af Warren, en hinir komu líka mjög vel fyrir,“ segir Silja Bára.

Biden aflýsti kosningavöku sinni

Í gær heimsóttu þau framboðsskrifstofur Joe Biden, Amy Klobuchar og Elizabeth Warren. Eftir að Joe Biden hríðféll í skoðanakönnunum var augljóst að fólk á skrifstofu hans hafi ekki verið mjög bjartsýnt.

„Á skrifstofu Bidens var lítið um að vera og fólk ekki mjög bjartsýnt. Enda fór Biden úr ríkinu skömmu síðar og aflýsti kosningavökunni sinni.“ Hins vegar var góður andi hjá fólkinu hennar Klobuchar að sögn Silju Báru. „Þau hafa verið að fá góð viðbrögð síðustu daga og töluvert fylgi virðist vera að færast til hennar.“

Fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi hvatti fólk til að kjósa Warren

Síðar hafi Silja Bára og Jón Gunnar dottið inn hjá Warren og var þeim sagt að það væri spennandi gestur inni: „sem reyndist vera Warren sjálf.“ Auk Warren var fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Robert Barber, en hann býr í Boston og varði deginum í New Hamsphire í að berja á dyr og hvetja fólk til að kjósa Warren.

Sama dag rakst Silja Bára alveg óvart á frambjóðandann Bernie Sanders.

„Á röltinu um bæinn á kjördag sáum við svo Bernie Sanders koma út úr vinsælli bókabúð. Einnig sáum við Michael Bennet,einn minnst þekkta frambjóðandann, á kaffihúsi og rákumst svo á Amy Klobuchar í nágrenni við hótelið þar sem flestir fjölmiðlar eru með höfuðstöðvar.“

View this post on Instagram

Elizabeth Warren wanted a picture

A post shared by Silja Ómarsdóttir (@siljabara) on

Silja Bára og Jón Gunnar hafa ferðast um nokkrar borgir í Bandaríkjunum til að fylgjast með viðburðum Demókrata og segja þær allar iða af lífi.

„Mikil stemming meðal stuðningsmanna og almennra borgara, sem flestir hafa sterkar skoðanir á frambjóðendunum. Flestir sem við höfum spjallað við eru demókratar, enda enginn raunhæfur mótframbjóðandi gegn Trump, og eru spenntir fyrir kosningunum í haust þótt þau viti að það geti verið á brattann að sækja.“

Aðspurð um hvaða frambjóðandi þyki líklegastur til að sigra, bendir Silja Bára á að kannanir séu enn óljósar og margt sem geti breyst, eins og staða Joe Biden ber skýrt vitni um.

„Svo ég held ég sleppi því að spá um útkomuna í haust.“

View this post on Instagram

Breakfast with Bernie in New Hampshire

A post shared by Silja Ómarsdóttir (@siljabara) on