Dóttir Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, er ekki sátt með föður sinn eftir færslu sem hann setti á Facebook í gær.
Í færslunni birtir Sigurður lögregluskýrslu um mál Kolbeins Sigþórssonar landsliðsmanns, sem var tekin af Þórhildi Gyðu Arnardóttur árið 2017.
Edda Sif Sigurðardóttir umrædd dóttir Sigurðar, skrifar ummæli við færslu föður sín og segir meðal annars færsluna ekki vera í takt við þann mann sem hann hafi að geyma.
„Stelpupabbinn sem hefur alla tíð hvatt okkur systur áfram, við séum alveg jafnar strákunum og kyn okkar komi hvergi málinu við,“ skrifar Edda Sif. Hún hvetur hann þá til að endurskoða gagnrýnisorð sín.
Hér má sjá ummæli Eddu í heild sinni:
„Æj pabbi þessi færsla er hvorki þér né málstað Kolbeins til framdráttar.
Hvað kemur það málinu við hverja stúlkan hefur valið að kyssa, sofa hjá og segja frá? Og trúðu mér það er ekkert óvanalegt að hún leiti ekki til læknis strax - ég er ekki enn farin 15 árum eftir atvik í mínu lífi.
Það sem er þó verst við þessi skrif þín er að þau eru í engum takt við þann mann sem þú hefur að bera. Fær fólk til að álíta þig og kalla kvenhatara. Stelpupabbinn sem alla tíð hefur hvatt okkur systur áfram, við séum alveg jafnar strákunum og kyn okkar komi hvergi málinu við.
Ég held þú ættir að endurskoða þessa færslu og setja fram á þann hátt sem sæmir þér.“