María Vorontsova, elsta dóttir Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta, hefur komið föður sínum til varnar sem og stríðinu í Úkraínu. Og þá á hún að hafa líkt Rússum við gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni.

Frá þessu greinir The Times, og vísar í rússneska miðilinn Republic, í frétt breska blaðsins kemur fram að Vorontsova hafi komið þessum sjónarmiðum á framfæri í færslum á netinu undir nafninu Maria V. Færslurnar birtust á samskiptamiðlinum Telegram í sérstökum hóp fyrir útskrifaða læknanema úr Ríkisháskólanum í Moskvu, en meðlimir hópsins eiga að vera um það bil 170 talsins.

„Mér þætti gaman að sjá hverjum þið kennið um þá staðreynd að við búum ekki við vel stætt efnahagslíf,“ á Vorontsova að hafa skrifað og þar með gefið kynna að rússar beri ekki ábyrgð á efnahagslegu ástandi landsins. Hún hefur til að mynda haldið því fram að vesturlönd, þá sérstaklega Bandaríkin og Evrópusambandið, hafi gert allt í sínu valdi til að hindra framgang Rússlands.

Þá hefur Vorontsova bent á að Bandaríkin séu líka óhrædd við stríðsrekstur og fái ekki sömu skammir fyrir það. Þá segir hún sérstakt að einungis Pútín sé kennt um innrás Rússlands í Úkraínu, og kallar þann málflutning barnalegan.

Skilaboð hennar hafa farið um víðan völl, en hún hefur einnig talað um ungverska milljarðamæringinn George Soros og réttindi hinsegin fólks.

Í apríl var greint frá því að Vorontsova og yngri systir hennar, Katerina Tikhonova, væru í hópi einstaklinga sem þættu tengdir stjórnvöldum í Kreml sem yrðu beittir hörðum viðskiptaþvingunum af hálfu Bandaríkjanna.

Pútín hefur alla tíð haldið einkalífi sínu utan sviðsljóssins. Þar af leiðandi er takmarkað vitað með vissu um samband hans við dætur sínar, og margar kenningar á lofti um það, en hann er talinn heldur fjarlægur þeim. Þá er hann talinn eiga fleiri börn sem hann hefur eignast utan hjónabands.