Pálína Hildur Sigurðardóttir, leikskólakennari og móðir einnar þeirra kvenna sem Robert Downey (áður Róbert Árni Heiðarsson) beitti kynferðislegu ofbeldi, segir að það skjóti skökku við að skipuleggjendur Kvennahlaupsins versli við fyrirtækið Henson. Eigandi Henson, Halldór Einarsson, var einn þeirra sem skrifaði meðmælabréf fyrir Robert þegar hann sótti um að fá uppreist æru.

Eins og þjóð veit komu fram upplýsingar um uppáskriftir margra áhrifamanna í þjóðfélaginu á meðmælabréf fyrir dæmda kynferðisbrotamenn. Má að einhverju leyti marka upphaf #MeToo og #HöfumHátt byltinganna hér á landi við þessar uppljóstranir.

„Það eru eflaust einhverjir sem geta farið í meiðyrðamál við mig og fundist ég ofboðslega vond kona, en það er mjög takmörkuð vopn sem ég hef í hendinni til þess að berjast og það er kannski einmitt það sem ég á við; eina vopnið okkar er samstaða,“ segir Pálína.

Meðal þess sem í ljós kom var að Halldór Einarsson, eigandi Henson, hafi borið Robert söguna vel og mælti með því að hann fengi uppreist æru. Pálínu skrifaði í dag færslu á Facebook þar sem hún gagnrýnir að Kvennahlaupið skipti við Henson. „[Mér] finnst það skjóta skökku við íþróttahreyfinguna sem er að hvetja til samstöðu kvenna og að þær eigi ánægjulega samverustund með fjölskyldu og vinum, og að á sama tíma er sú hreyfing að versla við mann sem skrifaði meðmælabréf fyrir dæmdan kynferðisbrotamann sem beitti margar ungar stúlkur kynferðislegu ofbeldi,“ skrifar Pálína á Facebook.

Lofaði að versla aldrei aftur við Henson

Í samtali við Fréttablaðið segir Pálína að það sé alls ekki í takt við boðskap Kvennahlaupsins að Henson skaffi bolina fyrir hlaupið. „Ég lofaði mér því að ég skildi aldrei versla vörur merktar eða framleiddar af Henson, af því ég er enn þá sár,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið. „Þetta er alls ekki í takt við boðskapinn og mér finnst þetta skjóta skökku við. Ég vil hvetja til þess að konur sýni samstöðu, en gagnvart hverju ætlum við að sýna samstöðu? Er það ekki gagnvart kynferðisbrotum, í kjölfar MeToo-byltingarinnar. Gerum við það eins og við sem tengjumst máli Roberts Downey gerðum, með því að hafa hátt?“ spyr Pálína.

Pálína segir að það séu ekki bolirnir sem slíkir, eða hlaupið sjálft, sem hún sé ósátt við. „Ég er ósátt við manninn sem skrifaði undir þessi meðmæli, og sagði að Robert hefði ekkert gert af sér eftir að hann kom úr fangelsi,“ segir hún. „Dóttir mín ber varanleg ör eftir þennan mann.“

Samstaðan er eina vopnið

Hún segir að einhverjir munu vera ósáttir við það sem hún hefur að segja. „Það eru eflaust einhverjir sem geta farið í meiðyrðamál við mig og fundist ég ofboðslega vond kona, en það er mjög takmörkuð vopn sem ég hef í hendinni til þess að berjast og það er kannski einmitt það sem ég á við; eina vopnið okkar er samstaða,“ heldur hún áfram.

„Þetta á það til að gleymast, það fennir yfir svona mál.“

Pálína minnist þessa að mörg íþróttafélög hafi stigið fram í kjölfar málsins og sögðust ætla breyta til. „Þetta á það til að gleymast, það fennir yfir svona mál. Ég er ekki að segja hvað fólk eigi að gera, heldur er ég bara að minna á hver það er sem er á bak við Hensonmerkið og hvað hann gerði,“ segir hún. „Það er svo val hvers og eins hvað hann gerir, fólk verður að eiga það við sig hvort að það vilji eiga viðskipti við þennan mann.“