Jón Bald­vin Hannibals­son, fyrr­verandi utan­ríkis­ráð­herra, sendi­herra og for­maður Al­þýðu­flokksins, segir að sam­band sitt við dóttur sína, Al­dísi Schram, hafi breyst eftir að hann hafi veitt sam­þykki við nauðungar­vistun og sjálf­ræðis­sviptingu árs­byrjun 1998.


Þetta kom fram í skýrslu hans í Héraðs­dómi Reykja­víkur í morgun, þar sem aðal­með­ferð fer fram í meið­yrða­máli sem hann höfðaði gegn dóttur sinni og Sig­mari Guð­munds­syni dag­skrár­gerðar­manni á RÚV.

Í málinu krefst Jón Bald­vin ó­merkingar á um­mælum sem féllu í Morgunút­varpi Rásar 2, 17. janúar 2019 og á Face­book síðu stefndu Al­dísar, 5. febrúar 2019. Þá gerir hann miska­bóta­kröfu á Sig­mar og að for­sendur og dóms­orð í málinu verði birt í morgunút­varpi Rúv.

„Ég held því fram að sam­band okkar hafi verið náið, gott og ein­lægt,“ sagði Jón Bald­vin í skýrslu sinni í morgun.

Sagði hann Al­dísi hafi borið hlýjan hug og vin­semd til sín áður en frásagnir um meint kynferðisbrot og kynferðisáreitni birust í fjölmiðlum og vitnaði hann í við­tal dætra sinna við tíma­ritið Mann­líf árið 1995.

„Ég held því fram að samband okkar hafi verið náið, gott og einlægt.“

Jón fullyrti að Aldísi hafi undirritað skjal þar sem hún veitti Jóni Baldvini föður sínu einum heimild til til að svipta hana sjálfræði.

Í ársbyrjun 1998 hafi reynt á að hann þyrfti að veita samþykki við nauðungarvistun og sjálfræðissviptingu Aldísar. Það hafi ekki verið geðþóttaákvörðun heldur hafi læknir lagt það til.

Aldís Schram sat gegnt föður sínum í réttarsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Sigtryggur Ari.

„Ég átti lengi vel í fórum mínum skrifað skjal, með eigin­hendi dóttur minnar, þar sem hún segir að faðir hennar væri eini maðurinn sem hún sam­þykkti að hefði heimild fyrir því að veita sjálf­ræðis­sviptingu. Ég viður­kenni að ég eigi ekki skjalið í fórum mínum,“ sagði Jón og bætti við að fleiri í hans fjöl­skyldu gætu stað­fest að þetta skjal væri til.

Að­spurður hvað hafi breyst í sam­bandi þeirra sagði Jón Bald­vin:

„Dóttir mín bar traust til mín. Hvað er það sem breyttist? Ég upp­lifi það þannig að eftir að hafa þurft lögum sam­kvæmt að veita í­trekað sam­þykki mitt fyrir harka­legum neyðar­ráð­stöfun, eins og nauðungar­vistun og sjálf­ræðis­sviptingu, þá breytist hugar­far dóttur minnar minnar og ég skil það vel. Hún beinir reiði sinni, ég segi rétt­látri reiði yfir þessari með­ferð, að mér, og ég er auð­vitað á­byrgur að lögum því ég veitti sam­þykki að vísu með hennar heimild eins og ég út­skýrði áðan. Þetta eru hörmu­legir hlutir en það er þetta sem breytist.“

Sagði Jón Baldin reiðina hafa náð há­punkti í heim­sókn dætra sinna til Washington D.C. árið 2002 sem hafi endað „með ó­sköpum“ en þá hafi hann fyrst heyrt saka­giftir um að hann hefði brotið á konum í fjöl­skyldu sinni.

Ummælin sem Jón krefst ómerkingar á:

Rás 2, 17. janúar 2019, ummæli Aldísar:

 • ... hann fær mig undir fölsku yfirskini að heimsækja afa minn ... mér var haldið inni þarna í mánuð sem sagt ólöglega.
 • ... já. Fimm sinnum á næstu 10 árum kastast í kekki milli mín og Jóns Baldvins Hannibalssonar og því lyktaði ávalt með því að (sic) sigaði á mig lögreglu sem handtók mig, hann er náttúrlega utanríkisráðherra ...
 • Hann gat bara þaðan í frá, þáverandi utanríkisráðherra og síðar sendiherra, virðist vera að hringja bara í lögreglu og þá var ég þar með handtekin, umsvifalaust í járnum, farið með mig upp á geðdeild ...
 • ... hann er þá líka að misnota lítil börn.
 • ... ég neita að skilja þau eftir í umsjón karls sem káfar á litlum stúlkubörnum.
 • Og sem sagt 10 mínútum eftir að ég kæri Jón Baldvin þá hringir dyrabjallan. Þar ruddust þarna inn tveir lögreglumenn ef ekki þrír og ég, þegar ég sé það þá reyni ég að loka en auðvitað tókst mér það ekki, þeir ryðjast þá þar með inn og þeir svara mér engu, ryðjast inn í stofu þar sem dóttir mín 5 ára gömul er að lesa og þegar barnið er tekið frá mér þá verð ég æf.
 • ... það er faðir minn sem stendur fyrir því að hér eigi að loka mig inni.
 • Fíkn, auðvitað er barnagirnd fíkn, þetta er fíkn.
 • ... nauðungarvistun án dóms og laga er þá ólögmæt frelsissvipting ...

Facebook, 5. febrúar 2019, höfundur Aldís:

 • ... og sigra hann og hans barnaníðingabandalag.

Rás 2, 17. janúar 2019, höfundur og flytjandi Sigmar (Aldís til vara):

 • ... að Jón Baldvin hafi notað aðstöðu sína sem sendiherra til að láta nauðungarvista hana á geðdeild.
 • Sá fundur Aldísar og Jóns Baldvins segir hún hafa reynst sér örlagaríkur og orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild.
 • ... að Jón Baldvin hafi sett sig í samband við félagsmálayfirvöld og geðdeild með það fyrir augum að fá hana nauðungarvistaða í enn eitt skiptið.
 • Þar segir hún einnig að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell þegar hún var fullorðin kona.