Magnús Sigur­jón Guð­munds­son, for­eldri á Sel­fossi, bjóst við því að barnið hans yrði sent heim úr skólanum vegna smits, en þó ekki á innan við fyrstu tveimur klukku­stundum eftir að dóttir hans mætti aftur eftir jóla­frí.

„Skóla­starf hófst klukkan 8:10. Ung­lingurinn kom heim klukkan 9:52. Þetta kallar maður að byrja árið með stæl,“ segir Magnús í færslu á Twitter í dag sem hann deilir mynd af pósti frá skólanum þar sem fram kemur að einn nemandi hafi mætt slappur í skólann, verið sendur heim þar sem hann tók heima­próf sem reyndist já­kvætt. Nemandinn bíður nú niður­stöðu úr PCR-prófi og allir nem­endur ár­gangsins í úr­vinnslu­sótt­kví á meðan, og þar á meðal dóttir hans Aþena Ugla Magnúsar­dóttir.

„Maður bjóst kannski við því að þetta myndi gerast í næstu viku, ekki á fyrstu tveimur tímunum á fyrsta degi.“

Magnús segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hann sé auð­vitað von­svikinn yfir því að þetta hafi gerst svo hratt og að ekki hafi verið hægt að grípa inn í hjá þessum nemanda, sem var slappur, áður en hann mætti í skólann en í þeim pósti sem sendur var á for­eldra í gær var skýrt að börnin ættu ekki að koma í skólann ef þau væru með ein­hver ein­kenni.

„Það er galið „sy­stem“ að skóla­haldið sé svona.“

Fjölskyldan saman um jólin, Jenny Hildur, Gabríel Úlfur, Aþena Ugla og Magnús Sigurjón.
Mynd/Aðsend

Væri gott ef fjarkennsla væri alvöru valkostur

Spurður hvort að hann og eigin­kona hans, Jenny Hildur Jónsdóttir, hafi í­hugað að halda börnunum heima segir hann lítið annað í stöðunni núna en að þau verði heima. Sem dæmi í skólanum hjá dóttur hans séu um 50 til 60 nem­endur í sama opna rýminu og margir sam­eigin­legir snerti­fletir.

„Þetta getur verið gróðrar­stía fyrir þessa blessuðu veiru sem virðist vera mjög skæð og smitast auð­veld­lega.“

Hann segir að í skóla dóttur sinnar hafi verið of lítil á­hersla á fjar­kennslu og að tækni­búnaður sé ekki nægi­lega góður svo að börnin hafi getað verið heima að læra.

„Það væri draumur í dós að geta gripið í þann mögu­leika að ekki skikka börnin til að vera heima og missa af kennslu, sér­stak­lega því þetta er hennar síðasta skóla­ár í grunn­skóla. Maður vill auð­vitað að hún fái eins mikið út úr náminu og hún getur,“ segir Magnús og að það hafi lítið annað verið í stöðunni fyrir þau en að senda hana í skólann.

Skóla­starf hófst klukkan 8:10. Ung­lingurinn kom heim klukkan 9:52. Þetta kallar maður að byrja árið með stæl

Erfitt að vega og meta aðstæður í dag

Hann segir að fyrir venju­legt fólk sé erfitt að feta sig á­fram í þessu um­hverfi og reyna að meta hvað sé rétt og best fyrir barnið, að fara í skólann til að læra eða að halda því heima til að forða því frá smiti.

„Það er erfitt fyrir mig að vega og meta hvort þetta sé hættu­legt um­hverfi fyrir barnið mitt. Ég hef engar for­sendur til að meta það sjálfur og maður verður að treysta sótt­varnar­yfir­völdum sem hafa verið alveg skýr um að þau vildu hafa skólana lokaða í þessari viku og ég sé það tveimur klukku­stundum eftir að skólarnir opnuðu að það hefði án efa verið gáfu­legt,“ segir hann.

Hann segir að hann finni fyrir því hjá sér og í almennri umræðu að fólk eigi erfitt með að sýna á­kvörðun ráð­herra skilning um að fara ekki núna eftir ráð­leggingum sótt­varna­læknis þegar kemur að opnun skólanna en sóttvarnalæknir lagði til að þeir yrðu lokaðir til 10. janúar.

„Ég veit að það eru önnur sjónar­mið og allir orðnir þreyttir. Það á ekkert að trúa í blindni og allir á­hyggju­fullir yfir at­vinnu- og efna­hags­lífinu og að það muni eiga erfitt ef við erum heima með börnin okkar en á sama tíma þá, að mínu mati, er of mikið af leik­mönnum sem hafa tekið sér of mikið skoðana­vald í hendur og stýra um­ræðunni og af ótta við þá um­ræðu er kannski verið að lúffa í þetta skiptið. Það má vera. Það er kannski ofur­ein­földun en manni finnst það skjóta skökku við þegar við erum í al­gerum há­punkti að akkúrat núna ætlum við ekki að hlusta.“

Magnús og Aþena á góðri stundu.
Mynd/Aðsend

Mjög snúin umræða

Magnús segir að nú bíði þau þess að sam­nemandi dóttur hans fái niður­stöðu sína og svo út frá því verði þau skikkuð í annað hvort sótt­kví eða smit­gát. Spurður um líðan dóttur hans segir hann að hún sé stressuð og að þetta ár, og síðustu ár, hafi haft mjög mikil á­hrif á skóla­gönguna. Hún stefni á fram­halds­skóla næsta haust og þetta hafi að sjálf­sögðu allt á­hrif á líðan hennar með það.

„Hún hefur auð­vitað verið að spyrja, og aðrir krakkar, af hverju þau áttu að fara og hvað myndi gerast ef það kemur upp smit,“ segir Magnús og kallar eftir því að að­stæðurnar séu betur út­skýrðar fyrir börnum og hvað sé í boði.

Hann kallar eftir betri úr­ræðum fyrir börn í fjar­kennslu en líka að fólk fylgist vel með börnunum og sjálfum sér og hvort þau gætu verið með ein­hver ein­kenni og hvort það þurfi jafn­vel að prófa börnin áður en þau mæta með ein­hverjum reglu­legum hætti.

„Óska­staðan væri alla­vega sú að það væri mynduð ein­hver skýr stefna hvernig við komumst í gegnum þetta með hag barnanna okkar í huga. Sama hvort það er að bjóða upp á fjar­kennslu, skipta hópum upp eða eitt­hvað annað. Ég er ekki með neina töfra­lausn en ég held að það séu of­boðs­lega margir sem eru að spyrja sig að því núna hvað gerist ef þetta heldur svona á­fram næstu daga og hvort að við verðum öll í heljar­greipum út janúar hvort við endum í sótt­kví eða ein­angrun vegna smits,“ segir Magnús.

Spurður hvort hann telji betra að hrein­lega loka öllu í tvær vikur, eða ein­hvern á­kveðinn skil­greindan tíma, en það sem er í boði núna segir Magnús að hann hafi auð­vitað velt því fyrir sér.

„Ég sem leik­maður spyr mig að því, og það er auð­velt fyrir mig að segja það, en maður veit að at­vinnu­lífið myndi lamast að ein­hverju leyti en á sama tíma lamast það ef við smitumst í stórum hrönnum og börn send í sótt­kví og for­eldrar með. Þannig manni er enginn greiði gerður sama hvort verður því ef við verðum öll heima næstu vikurnar þá verður að spyrja hvernig skólarnir geta tekið á móti börnum í fjar­kennslu og hvernig for­eldrar geta höndlað það að vera heima með börnunum sínum. Þetta er bara mjög snúin um­ræða,“ segir Magnús að lokum.

Færslu Magnúsar er hægt að sjá hér að neðan.