Claudia Conway, dóttir Kel­ly­anne Conway, hefur vakið mikla at­hygli á sam­fé­lags­miðlum síðast­liðinn sólar­hring en hún greindi frá því á TikTok í gær að Donald Trump Banda­ríkja­for­seti væri ekki í góðu á­sig­komu­lagi, líkt og læknar hans hafa greint frá.

„Hann er ekki „betri“,“ skrifaði Claudia meðal annars um á­stand Trump. „Hann er svo fá­rán­legur. Það virðist vera að hann sé í slæmu standi ... þau eru að gera allt sem þau geta til að koma honum úr hættu,“ sagði Claudia eftir að fylgj­endur hennar fóru að spyrja hana nánar út í málið.

Gagnrýnd fyrir að leyna upplýsingum

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Claudia hefur gagn­rýnt Trump en móðir hennar, Kel­ly­anne, er einn helsti ráð­gjafi for­setans. Kel­ly­anne á­kvað þó að stíga til hliðar til að ein­beita sér að fjöl­skyldunni en Claudia hefur tjáð sig opin­skátt um þeirra sam­band á sam­fé­lags­miðlum og meðal annars sagt að starf móður sinnar hafi eyði­lagt líf sitt.

Trump yfir­gaf Walter Reed-sjúkra­húsið í gær eftir að hafa dvalið þar í þrjá daga en hann greindi frá því að­fara­nótt föstu­dags að hann og for­seta­frúin væru smituð af CO­VID-19. Mis­vísandi upp­lýsingar hafa komið fram um heilsu Trumps en læknar for­setans hafa verið gagn­rýndir fyrir að leyna upp­lýsingum.

For­setinn setti inn færslu á Twitter skömmu áður en hann yfir­gaf spítalann og sagðist líða betur en honum leið fyrir 20 árum. Mér líður mjög vel! Ekki hræðast Co­vid. Ekki láta það stjórna lífi þínu,“ sagði Trump einnig í færslunni. Ýmsir eiga þó erfitt með að trúa því að allt sé með felldu í lífi for­setans.

Eina sem býður upp á raunverulegar upplýsingar

Donald Trump er nú í ein­angrun í Hvíta húsinu en rúm­lega 30 manns í kringum hann hafa einnig greinst með veiruna, til að mynda Kel­ly­anne og Claudia, Melania Trump, og þrír öldunga­deildar­þing­menn. Mike Pence, vara­for­seti Banda­ríkjanna, hefur þó ekki greinst með veiruna og ekki heldur mót­fram­bjóðandi Trumps til for­seta, Joe Biden.

Líkt og áður kom fram hafa um­mæli Claudiu vakið mikla at­hygli á sam­fé­lags­miðlum á borð við Twitter en margir hrósa henni fyrir að stíga fram með upp­lýsingarnar, sem hún hefur ef­laust fengið frá móður sinni. Þá vilja margir meina að hún sé sú eina sem greinir raun­verulega frá stöðu for­setans. Ekki liggur þó fyrir hvort upplýsingar Claudiu um heilsu Trumps séu réttar.