Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Pírata, segir aðgerðir við Sundabraut vera umferðaraukandi og að þær muni hafi neikvæð áhrif á fjölda hjólreiðaferða og ferða með almenningssamgöngum.

Hún greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og segir þetta koma fram í félagshagfræðilegri greiningu á Sundabraut sem kynnt var í borgarráði í vikunni.

Að sögn Dóru Bjartar kemur fram í greiningunni séu heildaráhrif á umferð einkabíla og vali á ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu ekki tekin inn í myndina, „þegar því er þó haldið fram að framkvæmdin muni minnka losun á CO2 og "leysa umferðarteppur".“

Dóra Björt segir að besta leiðin til auka bílaumferð sé að byggja fleiri vegi og að besta leiðin til að leysa umferðarteppur sé að fækka bílum.

„Þetta hefur áratugareynsla sýnt,“ segir Dóra Björt og spyr hvernig umferðaraukandi aðgerð geti haft jákvæð áhrif á lífsgæði borgarbúa og þróun borgarinnar. Það sé ósvöruð spurning.

„Sundabraut getur tengt saman Vesturland og Reykjanes með greiðari vöruflutningum og landshlutaferðalögum, en einungis án þess að ganga á lífsgæði Reykvíkinga ef það eru forsendurnar sem við gefum okkur. Það er ekki forsvaranlegt að bæta við stofnvegi inn í Reykjavík án þess að endurhugsa allt vegakerfið frá grunni um leið. Erlendis þekkist að hleypa stofnvegaumferð neðanjarðar í gegnum borgir en halda yfirborðsumferð rólegri á forsendum gangandi og hjólandi,“ segir Dóra Björt jafnframt.

Hún bendir á að Sundabraut, með mislægum gatnamótum og einkabílnum í forgrunni muni eins síns liðs á endanum auka losun gróðurhúsalofttegunda á höfuðborgarsvæðinu og þannig vinna gegn Parísarsáttmálanum, „og það að öllum líkindum án þess að leysa þessar umferðarteppur.“