Dóra S. Bjarnason, prófessor emerita við Háskóla Íslands, er látin, 73 ára að aldri.

Morgunblaðið greinir frá þessu. Dóra vann lengi að rannsóknum á sviði fé­lags­fræðimennt­un­ar, fötl­un­ar­fræði og skóla­stefn­unn­ar skóla án aðgrein­ing­ar. Einnig rannsakaði hún sögu og afrakst­urs sér­kennslu og jaðar­setn­ing­ar fatlaðs fólks.

Áttu verk Dóru mik­il­væg­an þátt í viðhorfs­breyt­ingu samfélagsins í garð fatlaðs fólks og til þátt­töku allra í sam­fé­lag­inu.

Hún skilur eftir sig soninn Bene­dikt Há­kon Bjarna­son. Hann fædd­ist árið 1980 og er fatlaður. Árið 1996 sendi Dóra frá sér bók­ina Und­ir huliðshjálmi – Sag­an af Bene­dikt, sem fjallaði um lífs­hlaup þeirra mæðgina.

Dóra S. Bjarnason, prófessor emerita við Háskóla Íslands.
Mynd/Vísindavefurinn

Rannsakaði einnig meðgöngu og tækni

Fram kemur á Vísindavefnum að Dóra hafi meðal annars unnið að samanburðarrannsókn á reynslu foreldra fatlaðra á stuðningi við fjölskyldur vegna fötlunar ásamt því að hafa gert meðgöngu og tækni að rannsóknarefni sínu.

Dóra hóf störf sem stundakennari við Kennaraháskóla Íslands haustið 1971 og var fastráðin 1981. Hún var ráðin prófessor við Kennaraháskólann 2004, sem varð síðar að Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Dóra Hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, var Morris Ginsberg-fellow við London School of Economics 1977-1978 og hefur setið í ýmsum nefndum og ráðum fyrir Kennaraháskóla Íslands og síðar Háskóla Íslands, síðast í doktorsráði Menntavísindasviðs.

Þá hefur hún einnig verið gestakennari við fjölmarga erlenda háskóla.