Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, odd­viti Pírata í borgarstjórn, segir sam­ræður þeirra Einars Þor­steins­sonar, odd­vita Fram­sóknar hafa verið upp­byggi­legar og góðar. Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig efnis­lega um þær.

„Hann kíkti hingað í kaffi,“ segir Dóra um fund sinn með Einari. Bæði eiga þau það sameiginlegt að hafa fyrir örskömmu síðan eignast barn.

„Þetta var bara huggu­legt. Við fórum vítt yfir sviðið, ræddum auð­vitað líka fæðingar­reynslu og maga­kveisur og litli maðurinn var hér með mér og ég gaf brjóst, svo þetta var mjög heimilis­legt, per­sónu­legt en líka pólitískt.“

Dóra segir þau hafa rætt mál­efna­stöður flokkanna og tæki­færin sem standa til boða í mögu­legu meiri­hluta­sam­starfi. Píratar unnu á í kosningunum frá 2018, bættu við sig bæði fylgi og einum borgar­full­trúa.

Að­spurð um það hvort Dóra hyggist mögu­lega sjálf gera til­kall til borgar­stjóra­stólsins, segir hún allt of snemmt að ræða þau mál.

„Við erum eini flokkurinn í frá­farandi meiri­hluta sem bætir við okkur og sigur fólginn í því. Hinir sem bættu við sig voru ekki í meiri­hluta og þurftu ekki að svara fyrir þau verk,“ segir Dóra.

„En það er ekki tíma­bært að ræða stóla að mínu mati. Eins og síðast þá ræðum við fyrst um mál­efnin og svo hlut­verk eftir það. Það skiptir máli fyrir okkar kjós­endur hvaða árangri við getum náð fyrir þá, hitt er meira út­færslu­at­riði hvernig við myndum halda utan um þau verk.“

Lokar ekki á Sósíal­ista

Sanna Magda­lena Mörtu­dóttir, odd­viti Sósíal­ista, hefur ekki verið með í bolla­leggingum um mögu­legan nýjan meiri­hluta en sjálf hefur hún úti­lokað sam­starf með Við­reisn.

Í sam­tali við Frétta­blaðið fyrr í dag segir Sanna sinn drauma­meiri­hluta vera meiri­hluta S, B, P og J. Enginn hafi þó heyrt í henni, þótt síminn sé opinn.

„Við höfum talað okkur saman með Sam­fylkingu og Við­reisn og því miður hefur Sósíal­ista­flokkurinn úti­lokað sam­starf með Við­reisn, sem tak­markar okkar mögu­leika dá­lítið,“ segir Dóra að­spurð um það hvort til greina komi að vinna með Sósíal­istum.

„En ég hyggst þó heyra í Sönnu og sjá hver staðan er út frá hennar sjónar­miðum og Kol­brúnu líka,“ segir Dóra og vísar til Kol­brúnar Baldurs­dóttur, odd­vita Flokks fólksins.

„Bara til þess að vita hver staðan er en það tak­markar stöðuna okkar að hún hefur sjálf úti­lokað Við­reisn,“ í­trekar Dóra að nýju.

Slíkur meiri­hluti gæti komið til skoðunar gangi nú­verandi við­ræður ekki. „Ef þetta gengi ekki eftir yrði að skoða þetta eitt­hvað.“