Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, borgar­full­trúi Pírata, fór hörðum orðum um Ey­þór Arnalds, odd­vita Sjálf­stæðis­flokksins, í Morgunút­varpi Rásar 2 í morgun. Þar sakaði hún Ey­þór um sýndar­við­skipti vegna hluta­bréfa hans í Morgunút­varpinu en Stundin greindi frá því um helgina að dóttur­fé­lag Sam­herja, Kattar­nef ehf., hafi veitt Ey­þóri 225 milljóna króna kúlu­lán fyrir hluta­bréfunum og hafi í fyrra af­skrifað 164 milljónir af láninu.

„Ég er bara að benda á það sem liggur fyrir,“ sagði Dóra í þættinum en hún kallaði eftir því að Ey­þór út­skýrði við­skiptin nánar og greindi frá því hvort hann væri hags­muna­tengdur Sam­herja eða öðrum aðilum á ein­hvern hátt.

„Það sýnir sig að Eyþór hefur í raun sagt ósatt um þetta lán," sagði Dóra en hún segir málið ekki snúast um að Ey­þór eigi hlut í Morgun­blaðinu heldur að þrjú stærstu út­gerðar­fyrir­tæki landsins hafi selt Ey­þóri bréf í Morgun­blaðinu.

„Það er að koma í ljós núna að [hluta­bréfin] virðast sum hafa verið gefin, vegna þess að þessi bréf voru seld á selj­enda­láni sem þau búast ekki við því að fá greitt. Sam­herji selur þessi bréf en lánar með dóttur­fé­lagi sínu, Kattar­nef ehf., fyrir kaup­verðinu og því virðast þetta hafa verið sýndar­við­skipti,“ sagði Dóra og bætir við að gjörningurinn hafi verið flókinn til að gera það erfitt fyrir al­menning að hafa yfir­sýn yfir málið.

„Að sjálf­sögðu er stefnt að því að klára þetta með besta hætti“

Ey­þór svaraði á­sökunum Dóru með því að hann skuldi engum neitt. Þá tók hann fram að deila mætti um verð­mæti hluta­bréfanna en verð­mæti þeirra hafi lækkað á síðustu árum. „Þetta eru á­hættu­við­skipti. Hins vegar hefur allt verið uppi á borðinu, það er ekkert skráð jafn vel og eignar­hlutur í fjöl­miðlum,“ sagði Ey­þór og bætti við að á­kvörðun Sam­herja um að lækka verð­mæti lánsins hafi verið þeirra á­kvörðun.

„Mér finnst ó­trú­legt samt að rekstrar­um­hverfið breytist svona mikið á tveimur árum, frá því að þessi hlutur sé metinn á 325 milljónir króna yfir að vera metinn á núll krónur,“ sagði Dóra Björt og vísaði með því til þess að Kattar­nef ehf., sem var stofnað í þeim eina til­gangi að halda utan um hluta­bréfa­eign í Morgun­blaðinu, var metið á núll krónur í árs­reikningi Kald­baks, dóttur­fé­lags Sam­herja.

Dóra spurði þá í kjöl­farið hvort Ey­þór kæmi til með að greiða fyrir bréfið á ein­hverjum tíma­punkti en því svaraði Ey­þór ekki beint heldur spurði Dóru á móti hvort litið verði á eignir annara borgar­full­trúa. „Að sjálf­sögðu er stefnt að því að klára þetta með besta hætti,“ svaraði Ey­þór eftir að spurningin var í­trekuð.

Varði reglur um hags­muni kjörinna full­trúa

Dóra minntist þar næst á reglur um hags­muni kjörinna full­trúa og drög sem hún lagði fram um fram­kvæmd þeirra. „Reglurnar hafa ekki verið kláraðar. Þau eru í meiri­hluta og geta klárað þetta,“ sagði Ey­þór og bætti við að að drög Dóru hafi ekki verið lög­leg. Dóra svaraði með því að málið hafi strandað á Sjálf­stæðis­flokknum.

„Ég neita því að Dóra taki það að sér að vera spyrill, ég hins vegar er búinn að svara þessari spurningu. Ég er búinn að bera um­tals­verðan kostnað af þessu, tjón í raun og veru, og hef ekki haft neinn hagnað,“ sagði Ey­þór og gagn­rýndi að um­ræðan snérist um við­skipti hans frekar en borgar­mál, eins og lokun Korpu­skóla sem nýlega var tilkynnt.

„Í staðinn fyrir að ræða borgar­mál þá er verið að koma með á­virðingar, allt er rétti­lega skráð og þú átt að skammast þín fyrir að koma svona fram,“ sagði Ey­þór að lokum og hélt því fram að fram­ferði Dóru bryti siða­reglur. „Ég veit að til­gerð og móðgunar­girni er kennd í stjórn­mála­skóla Sjálf­stæðis­flokksins, en þetta hefur bara engin á­hrif á mig,“ svaraði Dóra að lokum.