Dóra Björt Guðjónsdóttir, varaformaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, er efins um þá hugmynd að fjölga eftirlitsmyndavélum til þess að koma í veg fyrir glæpi.

Atvik í síðustu viku þar sem karlmaður reyndi að ræna sjö ára stúlku af leikvelli í Grafarvogi hefur vakið mikinn óhug og hefur leitt til tillagna um að settar verði upp öryggismyndavélar á íslenskum leikvöllum. Ragnar Örn Ottósson, faðir stúlkunnar, hafði velt upp þessum möguleika og hafði bent á að þegar séu eftirlitsmyndavélar á skólalóðum grunnskóla.

Í samtali við Vísi sagði Dóra að slíkar ráðstafanir komi til með að skapa ímynd öryggis fremur en eiginlegt öryggi og muni helst hafa þau áhrif að glæpir færist út fyrir augsýn vélanna. Bendir hún í því samhengi á að fjöldi eftirlitsmyndavéla í Lundúnum hafi ekki dregið úr glæpatíðni þar í borg heldur hafi glæpir dreifst á önnur svæði.

Dóra sagðist ekki hlynnt uppbyggingu „eftirlitssamfélags“ en sagði þó að taka yrði tillit til aðstæðna að hverju sinni. Skólalóðir og leiksvæði séu til að mynda viðkvæm svæði og mikilvægt sé að koma í veg fyrir ofbeldisglæpi á stöðum sem slíkum. Fjölgun eftirlitsmyndavéla á skólalóðum sé mál sem beri að skoða. „Það þyrfti þá að vera gert í samstarfi við lögreglu og neyðarlínu og það sem myndi skipta gríðarmiklu máli er gegnsæi og skýrt og gott utanumhald um það hver myndu hafa aðgang að upplýsingunum, því þetta yrði viðkvæmt persónuupplýsingamál.“