Bjarni Benediktsson fjármála- og efnhagsráðherra segist kannast við að hafa heyrt Gunnar Braga Sveinsson, þingmann Miðflokksins, lýsa yfir áhuga á starfi í utanríkisþjónustu, en veit þó ekki til þess að Gunnar Bragi hafi fengið loforð um slík störf. 

Bjarni sagði á fundinum að stjórnmálamenn og ráðherrar þekki það að menn óski eftir að ræða við þá um skipanir eða áhuga á slíkum störfum og að hann telji það  „dónaskap“ að verða ekki við beiðnum manna um að mæta á fundi sem þessa. Þetta kom fram í máli Bjarna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun þar sem fjallað er um sendiherrakapalinn svokallaða.

Boðað var til fundarins eftir Klaustursupptökurnar en þar heyrist Gunnar Bragi fullyrða að honum hafi verið lofuð staða sendiherra. Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru báðir boðaðir á fundinn – en mættu hvorugir. Þeir sendu hins vegar frá sér yfirlýsingar, sem lesa má um hér.

Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra voru einnig boðaðir til fundarins vegna málsins, og sat Bjarni fyrstur fyrir svörum.

Taka fyrir að hafa lofað Gunnari Braga stöðu

Líkt og fram hefur komið í fréttum hafa bæði Bjarni og Guðlaugur Þór staðfest að hafa átt fund vegna áhuga Gunnars Braga á starfi í utanríkisþjónustunni, en báðir hafa tekið fyrir það að hafa lofað Gunnari stöðu. Það sé eðlilegt að verða við beiðnum um fundi þegar eftir þeim sé óskað, eins og í tilfelli Gunnars. 

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, spurði Bjarna því hvort það sé algengt að ráðherrar og stjórnmálamenn eigi óformleg samtöl sem þessi, og hvort það sé eðlilegt með tilliti til skipana og ráðninga. Bjarni sagði það ekki sitt málefnasvið og að beina ætti spurningunni til utanríkisráðherra. Hins vegar gruni hann að algengt sé að utanríkisráðherrar fái slíkar beiðnir.

„Ég hef einhverja reynslu af því en þetta er dæmi um að það sé komið á framfæri við ráðherra, en svo er nærtækt að horfa á lista yfir sendiherra og þar eru auðvelt að finna nokkra fyrrverandi alþingismenn. Ég er þeirrar skoðunar að þeir séu margir, fyrrverandi, mjög vel til þess fallnir að taka að sér þau verkefni sem felast í sendiherrastöðunum,“ sagði Bjarni á fundinum.

Lengi tíðkast að skipa stjórnmálamenn í sendiherrastöður

Jón Steindór spurði þá hvort ekki væri hægt að setja einhverjar hæfniskröfur í stað þess að slíkar skipanir gerðust með þeim hætti sem mætti kalla „sérkennilegar“ og ekki í anda gagnsæis.

Bjarni sagði að slík umræða ætti eflaust frekar heima í þingsal undir sérstakri umræðu. Hann sagði að hann hefði engu hlutverki að gegna við slíkar skipanir, hann hafi einfaldlega verið að leiða menn saman. Hann benti síðan á að í ráðherratíð Guðlaugs Þór hafi í raun enginn verið skipaður sendiherra heldur hafi þeim embættum verið fækkað.

Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins tók þá næstur til máls. Hann ræddi ummæli Gunnars Braga á Klaustursupptökunum um að hann „ætti inni eitthvað hjá D“ og spurði Bjarna hvaða menn hann ætti við þegar Bjarni sagði í svörum sínum að það væri algengt að fyrrverandi stjórnmálamenn væru skipaðir í sendiherrastöður. Að Að því loknu las hann upp lista af stjórnmálamönnum

Bjarni sagði að hann gæti ekki tjáð sig um fyrri skipanir en að þessi samsetning hefur lengi tíðkast – að stjórnmálamenn taki að sér slíkar stöður. 

Fundurinn var í beinni. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér.