Donald Trump Bandaríkjaforseti segist taka malaríulyfið Hydroxychloroquine til þess að koma í veg fyrir kórónaveirusmit. Hann er þó ekki smitaður af COVID-19.

Trump greindi frá þessu á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. „Ég hef verið að taka þetta lyf í eina og hálfa viku og hér stend ég enn,“ sagði Trump.

Malaríulyfið, sem hefur verið notað í meðferðarskyni víða um allan heim, hefur ekki sýnt ávinning umfram hefðbundna umönnun samkvæmt nýlegri rannsókn frá Bandaríkjunum.

Lyfið getur valdið alvarlegum aukaverkunum, þar á meðal hjartsláttartruflunum, en þrátt fyrir það hefur Donald Trump verið ötull talsmaður lyfsins.

Tímaritið New York Times greindi frá því í síðasta mánuði að Trump ætti lítinn hlut í fyrirtækinu sem framleiðir malaríulyfið.

Lyfjafyrirtækið Alvogen pantaði í mars 50 þúsund skammta af Hydroxychloroquine til að gefa Landspítalanum. Lyfin komu til landsins í byrjun apríl.

Heilbrigðissamfélagið gagnrýnir forsetann harðlega fyrir ummælin og hafa margir biðlað til almennings að taka ekki lyfið að óþörfu.