Donald Trump, for­seti Banda­ríkjanna og Melania Trump, for­seta­frú Banda­ríkjanna, eru bæði smituð af CO­VID-19. Donald Trump greinir frá þessu sjálfur á twitter síðu sinni rétt í þessu.

Sam­kvæmt CNN er um að ræða stærstu heilsu­ógn fyrir sitjandi for­seta Banda­ríkjanna í ára­tugi en Trump, sem er 74 ára, er í á­hættu­hópi.

Trump sást síðast opin­ber­lega í gær er hann gekk inn í Hvíta húsið eftir fjár­öflunar­við­burð í New Jer­s­ey ríki. Sam­kvæmt blaða­mönnum CNN virtist for­setinn ekki líta út fyrir að vera veikur en hann tók ekki við neinum spurningum blaða­manna.

Blaða­menn vestan­hafs fengu í nótt minnis­blað frá lækni for­setans, Sean Conl­ey, sem stað­festi að for­setinn væri með CO­VID-19.

Í minnis­blaðinu segir að bæði Trump og Melania séu við á­gæta heilsu og að þau munu ein­angra sig í Hvíta húsinu.

Fyrr um kvöldið var greint frá því að Hope Hicks, sem er ein af nánustu ráðgjöfum Trump, væri með COVID-19. Hún var samferða Trump-hjónunum í flugvél forsetans til Ohio fyrir kappræðurnar gegn Joe Biden, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, í vikunni.