Fulltrúadeild Bandaríkjaþingsins samþykkti rétt í þessu að ákæra Donald J. Trump, 45. forseta Bandaríkjanna, til embættismissis (e. impeach). Trump er því þriðji forseti í 250 ára sögu Bandaríkjanna, á eftir Andrew Jackson og Bill Clinton, til að vera ákærður til embættismissis.

Meirihluti þeirra 435 þingmanna sem sitja í fulltrúadeildinni þurftu að samþykkja ákærurnar tvær; misbeitingu á valdi (e. abuse of power), þar sem hann setti skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð til Úkraínu, og að hindra framgang þingsins (e. obstruction of justice), þar sem hann neitaði að leggja fram skjöl til fulltrúadeildarinnar og meinaði starfsmönnum Hvíta hússins að bera vitni.

Alls greiddu 427 þingmenn atkvæði vegna fyrstu ákærunnar (misbeitingu á valdi), 230 voru með og 197 á móti. Allir Demókratar, fyrir utan tvo, voru fylgjandi ákærunum, auk eins þingmanns sem er óháður. Þá kusu allir þingmenn Repúblikana, og tveir þingmenn Demókrata, á móti

Niðurstöður kosninga um fyrstu ákæruna.

Alls greiddu 427 þingmenn atkvæði vegna seinni ákærunnar (að hindra framgang þingsins), 229 voru með og 198 á móti. Allir Demókratar, fyrir utan þrjá, voru fylgjandi ákærunum, auk eins þingmanns sem er óháður. Þá kusu allir þingmenn Repúblikana, og þrír þingmenn Demókrata, á móti.

Niðurstöður kosninga um seinni ákæruna.

Atkvæðagreiðslan hófst stuttu eftir klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma, 19 að staðartíma, en fulltrúadeildin hefur fundað um málið frá því klukkan níu í morgun að staðartíma. Þar sem Demókratar eru með meirihluta innan fulltrúadeildarinnar, og þingmenn hafi á öðrum stigum rannsóknarinnar fylgt flokkslínum, var nánast vitað að Trump yrði ákærður.

Þegar niðurstaðan lá fyrir var Trump, sem hefur ávalt neitað sök, staddur á fjöldafundi í Michigan þar sem hann ræddi við stuðningsmenn sína en hann sakaði Demókrata í gær um mestu misbeitingu valds í sögu Bandaríkjanna. Öldungadeild Bandaríkjaþings sér síðan um að dæma í málinu en þar sem Repúblikanar eru í meirihluta innan öldungadeildarinnar er ólíklegt að Trump verði dæmdur.

Fréttin hefur verið uppfærð.