Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, aflýsti leynilegum fundi sínum með Ashraf Ghani, forseta Afganistans, og æðstu leiðtogum talibana sem fram átti að fara í gær.

Trump greindi frá á Twitter að fundurinn hefði verið fyrirhugaður í Camp David. Á fundinum voru fyrirhugaðar friðarviðræður á milli Bandaríkjanna og talibana.

Þá segist hann hafa hætt við fundinn í kjölfar þess að talibanar lýstu yfir ábyrgð á árás í Kabúl í Afganistan á fimmtudag þar sem bandarískur hermaður lést ásamt ellefu óbreyttum borgurum. Fjórir bandarískir hermenn hafa látist í Afganistan á tveimur vikum.

Trump segir í Twitter-færslunni að fundinum hafi verið aflýst um leið og talibanar lýstu yfir ábyrgð á árásinni og að hann stefni ekki á friðarviðræður við fólk sem myrðir saklausa borgara til þess að styrkja samningsstöðu sína.

Friðarviðræður á milli Bandaríkjanna og talibana hafa staðið yfir um nokkurt skeið en Bandaríkin réðust inn í Afganistan í kjölfar árásanna á tvíburaturnanna árið 2001. Samtökin Al-Kaída gengust við árásinni. Samtökin voru fjármögnuð að miklu leyti af talibönum sem þá voru við stjórn í Afganistan.

Utanríkismálaráðherra Bandaríkjanna sagði við fjölmiðla að fundurinn hefði verið í bígerð í dágóðan tíma. Hann sagði að talibanar hefðu ekki staðið við sinn hluta bráðabirgðasamnings sem gerður hefði verið á milli þeirra og Bandaríkjamanna með árásinni, en hluti samningsins sneri að því að draga úr ofbeldi.

Talibanar sendu frá sér yfirlýsingu fáeinum tímum eftir að Trump aflýsti fundinum þar sem fram kom að ákvörðun forsetans væri vond. „Báðir aðilar hafa lagt mikið á sig í undirbúningi friðarviðræðnanna. Ákvörðun forsetans mun leiða af sér tap fyrir Bandaríkin, þetta sýnir allan viljann til friðarviðræðna. Mannfall mun aukast, “ sagði talsmaður talibana í yfirlýsingunni.