Domus Medi­ca mun hætta rekstri frá næstu ára­mótum og lækna­stofur og skurð­stofur lagðar niður. Fram­kvæmda­stjóri Domus Medi­ca, Jón Gauti Jóns­son, stað­festi þetta í sam­tali við Morgun­blaðið í dag.

„Rekstur lækna­stöðva hefur verið mjög þungur síðustu ár. Meðal­aldur læknanna er að hækka og ný­liðun hefur ekki verið jafn mikil og hún hefði þurft að vera vegna erfiðra rekstrar­skil­yrða. Nýting hefur því minnkað, sem í­þyngir rekstrinum,“ segir Jón Gauti.

Hann býst við því að ein­hverjir þeirra 70 sér­fræðinga sem hafa lækna­stofur í Domus Medi­ca muni halda á­fram annars staðar. Apó­tekið mun væntan­lega einnig fara og blóð­rann­sóknir verða lagðar niður um ára­mótin en röntgen­rann­sóknir halda á­fram.

Jón Gauti segir lengi hafa ríkt á­kveðinn glund­roða í stjórnun á heil­brigðis­þjónustu. Hann segir ríkis­væðingar­stefnu ríkis­stjórnarinnar undan­farin fjögur ár ekki styðja starf­semi á borð við þá sem stunduð er í Domus Medi­ca.

„Menn treysta sér ekki til að halda á­fram í því á­standi sem hefur ríkt í stjórnun heil­brigðis­þjónustunnar nokkuð lengi,“ segir Jón Gauti.

Þá er hann ekki vongóður um að ríkis­stjórnin muni bæta úr á­standinu og segir ó­mögu­legt að halda á­fram rekstrinum miðað við þá ríkis­væðingar­stefnu sem stjórn­völd hafa staðið fyrir síðustu ár.

Domus Medi­ca hefur starf­rækt mót­töku og stofur sér­fræði­lækna frá 1966 og Lækna­húsið hefur starf­rækt skurð­stofur í húsinu frá 1999.