Domus Medica mun hætta rekstri frá næstu áramótum og læknastofur og skurðstofur lagðar niður. Framkvæmdastjóri Domus Medica, Jón Gauti Jónsson, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í dag.
„Rekstur læknastöðva hefur verið mjög þungur síðustu ár. Meðalaldur læknanna er að hækka og nýliðun hefur ekki verið jafn mikil og hún hefði þurft að vera vegna erfiðra rekstrarskilyrða. Nýting hefur því minnkað, sem íþyngir rekstrinum,“ segir Jón Gauti.
Hann býst við því að einhverjir þeirra 70 sérfræðinga sem hafa læknastofur í Domus Medica muni halda áfram annars staðar. Apótekið mun væntanlega einnig fara og blóðrannsóknir verða lagðar niður um áramótin en röntgenrannsóknir halda áfram.
Jón Gauti segir lengi hafa ríkt ákveðinn glundroða í stjórnun á heilbrigðisþjónustu. Hann segir ríkisvæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar undanfarin fjögur ár ekki styðja starfsemi á borð við þá sem stunduð er í Domus Medica.
„Menn treysta sér ekki til að halda áfram í því ástandi sem hefur ríkt í stjórnun heilbrigðisþjónustunnar nokkuð lengi,“ segir Jón Gauti.
Þá er hann ekki vongóður um að ríkisstjórnin muni bæta úr ástandinu og segir ómögulegt að halda áfram rekstrinum miðað við þá ríkisvæðingarstefnu sem stjórnvöld hafa staðið fyrir síðustu ár.
Domus Medica hefur starfrækt móttöku og stofur sérfræðilækna frá 1966 og Læknahúsið hefur starfrækt skurðstofur í húsinu frá 1999.