Beiðni Amber Heard um að fella ætti úr gildi réttarhöldin sem fram fóru á milli hennar og Johnny Depp hefur verið hafnað af dómara. Þetta kemur fram á vef The Guardian en Beiðni Heard byggðist á því að ákveðin misferli hefðu átt sér stað í kviðdómendavali réttarins en 77 ára maður sem boðaður var í kviðdóminn sinnti ekki skildu sinni. Í hans stað kom sonur hans sem ber sama nafn og hefur sama heimilisfang.

Dómari málsins Penney Azcarate hefur nú hafnað öllum athugasemdum lögfræðinga Heard.

Ákvörðun dómarans var kveðin upp í gær og Heard er því enn skaðabótaskyld gagnvart Depp en upphæðin sem hún þarf að greiða er 10 milljónir dollara.

Lögfræðingar Heard vildu meina að með þessu væri dómurinn ekki gildur og því ætti að vísa honum frá með það fyrir huga að endurtaka réttarhöldin.

„Þessi tiltekni meðlimur kviðdómsins sat öll réttarhöldin, velti fyrir sér sönnunargögnum og skilaði úrskurði,“ sagði Azcarate í niðurstöðu sinni „Einu sönnunargögnin sem liggja fyrir þessum rétti er að allir kviðdómendur fylgdu eið sínum, leiðbeiningum réttarins og skipunum hans.“

Heard hefur þó enn möguleikann á því að áfrýja dóminum en erfitt gæti reynst að breyta niðurstöðu hans nema ný sönnunargögn komi fram.