Sjö Íslendingar bíða niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í sex málum um sambærileg umkvörtunarefni sem leidd voru til lykta í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur í gær. Málin sex varða alls sex dómara við Hæstarétt og sakfellingar fyrir markaðsmisnotkun í öllum þremur föllnu bönkunum.

Í dómi MDE er talið að aðeins hlutafjáreign Viðars Más Matthíassonar hafi gefið tilefni til að meta hæfi hans sérstaklega og hlutleysi dómsins því ekki verið hafið yfir allan vafa.

Í kæru Elínar var einnig vísað til hlutafjáreignar Eiríks Tómassonar og Markúsar Sigurbjörnssonar en MDE taldi hlutafjáreign Eiríks Tómassonar í Landsbankanum ekki nægilega til að tap hans á falli bankans væri það mikið að það drægi í efa hæfi hans til að dæma í máli hennar. Þá hafi Markús Sigurbjörnsson átt hlutafé í Glitni en ekki Landsbankanum fyrir hrun og hæfi hans í máli Elínar verði því ekki dregið í efa.

Var niðurstaða MDE að með vafa um hæfi Viðars Más hafi hlutleysi dómsins ekki verið hafið yfir vafa. Því sé um brot á 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmálans að ræða.

Af niðurstöðu MDE má draga nokkrar ályktanir um þau mál sem bíða enn niðurstöðu í Strassborg. Í fyrsta lagi að dómarar verði ekki taldir vanhæfir í málum sem vörðuðu aðra banka en þá sem þeir áttu fjárhagslega hagsmuni í og í öðru lagi að þeir hagsmunir hafi þurft að vera umtalsverðir og meiri en sem nemur tapi Eiríks Tómassonar á falli Landsbankans, sem nam rúmum 1,7 milljónum króna.

Ekki er ljóst hvort og hve mikil áhrif það hafði fyrir niðurstöðu MDE að Elín hafði verið sýknuð í héraði en Hæstiréttur sneri dómi héraðsdóms við og sakfelldi hana. Um slíkan viðsnúning var að ræða í fjórum af þeim sex málum sem bíða dóms í Strassborg.

Þrjú Landsbankamál

Beðið er niðurstöðu MDE í þremur Landsbankamálum, þeirra Steinþórs Gunnarssonar, Sindra Sveinssonar og Sigurjóns Árnasonar. Þeir voru sýknaðir í heild eða hluta í héraði en allir sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun í Hæstarétti. Mál þeirra varðar hlutafjáreign Eiríks Tómassonar, Viðars Más Matthíassonar og einnig Markúsar Sigurbjörnssonar í máli Sigurjóns Árnasonar. Málin stafa af sama sakamáli og Elín var dæmd í og varða sömu dómara. Líkur eru því á svipaðri niðurstöðu.

Ólafur ekki líklegur

Aðeins eitt mál tengt Kaupþingi hefur fengið meðferðarhæfi hjá MDE vegna hlutafjáreignar dómara; mál Ólafs Ólafssonar. Hann var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun í Hæstarétti 12. febrúar 2015 og í kæru sinni vísar hann til hlutafjáreignar dómaranna Markúsar Sigurbjörnssonar og Árna Kolbeinssonar. Hvorugur þeirra átti hins vegar hlutafé í Kaupþingi svo vitað sé. Tap þeirra á falli hinna bankanna verður því varla talið hafa áhrif á hæfi þeirra til að dæma mál Glitnismanna, samanber niðurstöðu í máli Elínar.

Eini dómarinn sem átti hluti í Kaupþingi var Gréta Baldursdóttir og hún dæmdi ekki mál Ólafs.

Stórt tap Markúsar

Tvö mál fyrrverandi starfsmanna Glitnis bíða niðurstöðu MDE. Jóhannes Baldursson var sakfelldur bæði í héraði og Hæstarétti fyrir markaðsmisnotkun í Glitni. Mál hans varðar hlutafjáreign Markúsar Sigurbjörnssonar og Ólafs Barkar Þorvaldssonar. Hlutafjáreign Ólafs Barkar í Glitni var einnig umtalsverð. Verðmæti bréfa hans nam tæpum 15 milljónum á árinu 2007 en hann seldi þau í desember það ár og fjárfesti í Sjóði 9, hlutabréfasjóði Glitnis. Hann mun hafa leyst það út á vormánuðum 2008. Markús átti umtalsvert fé í sjóðum Glitnis en í dómi MDE kemur fram að tap hans hafi numið tæpum átta milljónum króna, sem er litlu minna en tap Viðars Más á falli Landsbankans.

Birkir Kristinsson, þáverandi starfsmaður Glitnis og eigandi félagsins BK-44 ehf., var sakfelldur bæði í héraði og Hæstarétti fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Mál hans er mjög sambærilegt máli Jóhannesar og varðar bæði hlutafjáreign Markúsar og Ólafs Barkar. Hann vísar hins vegar einnig til hlutafjáreignar Grétu Baldursdóttur í sinni kæru til MDE. Gréta Baldursdóttir átti hlutafé í Kaupþingi og Landsbankanum en ekki í Glitni. Hennar tap við fall bankanna verður varla talið hafa áhrif á hæfi til að dæma mál Glitnismanna, samanber niðurstöðu í máli Elínar.

Óvíst um tap Ólafs Barkar

Karl Wernersson, hluthafi og stjórnarmaður í Milestone, var sýknaður í héraði en sakfelldur í Hæstarétti fyrir umboðssvik. Málið varðaði stóra lánveitingu Glitnis til Milestone á fyrri hluta árs 2008. Í kæru sinni vísar hann til hlutafjáreignar Grétu Baldursdóttur, Ólafs Barkar Þorvaldssonar og Viðars Más Matthíassonar. Hlutafjáreign Ólafs Barkar í Glitni var umtalsverð í aðdraganda hrunsins en hvorki Gréta né Viðar Már áttu hlut í Glitni í aðdraganda hrunsins. Ætla má að niðurstaða málsins ráðist af því hvort hlutafjáreign Ólafs Barkar í Glitni hafi verið nægileg til að draga hæfi hans til að dæma mál um fall Glitnis í efa og hvort slíkt vanhæfi eigi einnig við um stjórnanda Milestone.