Endurupptökudómur hefur heimilað endurupptöku tveggja dæmdra sakamála í Landsrétti, á grundvelli dóms yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu.

Úrskurðir endurupptökudóms í málunum verða birtir á vef dómsins í dag en um er að ræða fíkniefnamál og kynferðisbrotamál.

Beiðnir um endurupptöku málanna voru byggðar á því að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu en meðal dómara sem lögðu dóm á málin í Landsrétti, var Jón Finnbjörnsson. Jón var einn einn fjögurra dómara sem Sigríður Á Andersen skipaði við Landsrétt án þess að dómnefnd teldi hann í hópi hæfustu umsækjenda.

Endurupptökudómur slær því föstu í úrskurðum sínum að eins hafi verið ástatt um Jón og dómarann Arnfríði Einarsdóttur sem dómur yfirdeildar MDE í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar fjallar um, en í því máli var fallist á að ríkið hefði brotið gegn 6. grein Mannréttindasáttmálans með skipun Arnfríðar við Landsrétt.

Meðal lagaskilyrða fyrir því að dæmt mál verði endurupptekið er að fram hafi komið ný gögn eða upplýsingar sem ætla megi að skipt hefðu verulegu máli fyrir niðurstöðu máls ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk í máli.

Að mati endurupptökudóms telst niðurstaða yfirdeildar MDE í Landsréttarmálinu til nýrra gagna í þeim tveimur málum sem úrskurðað var um í gær og á þeim grundvelli var endurupptaka málanna.

Í úrskurðum endurupptökudóms er rifjað upp að þegar Hæstiréttur sýknaði ríkið í máli Guðmundar Andra hafði rétturinn áður komist að þeirri niðurstöðu í málum tveggja umsækjenda um stöðu Landsréttardómara, að brotið hefði verið gegn gildandi lögum um skipun fimmtán dómara við landsrétt.

Er heimild til endurupptöku sérstaklega rökstudd í úrskurðum endurupptökudóms með vísan til ályktanna yfirdeildar MDE um að Hæstiréttur hafi ekki dregið nauðsynlegar ályktanir af eigin niðurstöðum eða lagt mat á málið þannig að það samræmdist mannréttindasáttmálanum.

„Þessir úrskurðir gefa góð fyrirheit um að íslenskir dómstólar fari að láta af því viðhorfi að telja það hlutverk sitt að passa upp á kerfið,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, lögmaður endurupptökubeiðenda í málunum tveimur.

Vilhjálmur segir mjög ánægjulegt að dómur yfirdeildar MDE fái þetta vægi og sé orðinn að virku dómafordæmi hér. Hann hafi spurst fyrir um þann fjölda mála sem dómararnir fjórir, sem dómur MDE taki til, hafi dæmt í meðan þeir voru skipaðir með ólögmætum hætti við réttinn.

„Þessir úrskurðir gefa góð fyrirheit um að íslenskir dómstólar fari að láta af því viðhorfi að telja það hlutverk sitt að passa upp á kerfið.“

„Þetta eru samtals 205 mál, þar af 85 sakamál og 120 einkamál. Það er þó ekki hægt að fullyrða að forsendur þessara úrskurða eigi við um þau öll,“ segir Vilhjálmur og vísar til fyrirvara í úrskurðunum um réttarvissu og mögulegra áhrifa tímalengdar frá dómsuppsögu.

Tólf mál bíða í Strassborg

Tólf mál af sömu rót og landsréttarmálið bíða enn dóms í Strassborg. Málin tólf hafa öll verið metin meðferðarhæf af MDE og lagði dómurinn að íslenska ríkinu ná sáttum við kærendur þeirra, með vísan til þess að kveðinn hefur verið upp fordæmisgefandi dómur í yfirdeild réttarins.

Hefur ríkið viðurkennt brot í öllum málunum en gerir kröfu um að þau verði felld niður með vísan til niðurstöðu Landsréttarmálsins en dómurinn á eftir að taka afstöðu til þeirra. Að sögn Vilhjálms gætu öll þessi mál endað fyrir endurupptökudómi hér heima. Það velti á því hvernig úrlausn þau fá í Strassborg.

Þeir ráðherrar í ríkisstjórn sem tjáðu sig um niðurstöðu yfirdeildar MDE, á sínum tíma voru almennt þeirrar skoðunar að dómurinn kallaði ekki á nein sérstök viðbrögð eða ráðstafanir af hálfu ríkisins.

Jón enn dómari

Jón Finnbjörnsson er enn dómari við Landsrétt þótt hann hafi ekki dæmt mál við réttinn síðan í mars 2019. Hann er einn eftir af dómurunum fjórum sem ekki hefur hlotið löglega skipun við réttinn. Aðeins fjórtán dómarar dæma nú mál í Landsrétti þrátt fyrir að lög mæli fyrir um að dómurinn skuli skipaður fimmtán dómurum. Jón er fimmtándi dómarinn.