Landsréttur staðfesti í gær átta mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjaness yfir móður sem nam tvö börn sín og sambýlismanns síns á brott og fór með þau til heimalands síns, án þess að fá leyfi föðurins.

Móðirin fór með börnin til útlanda árið 2019, en þá var sonur þeirra á leikskólaaldri og dóttir þeirra enn á brjósti. Móðirin neitaði sök og sagðist óttast föðurinn. Hún vildi meina að allan sambúðartíma þeirra hefði hann beitt hana ofbeldi. Auk þess tók hún fram að hann hefði skutlað þeim út á flugvöll er þau fóru út.

Faðirinn sagðist ekki hafa viljað stöðva móðurina vegna þess að sonur þeirra hafi verið orðinn mjög spenntur fyrir ferðinni „enda verið búið að hræra í honum með lýsingum á öllu því skemmtilega sem gera ætti í ferðinni,“ segir í dómnum.

Einnig hafi hann ekki viljað stöðva þau með valdi svo börnin hefðu ekki þá mynd af föður sínum að hann væri ofbeldisfullur.

Dómurinn mat það svo að móðirin hefði ekki haft rétt á því að fara með börnin erlendis án þess að fá leyfi frá föðurnum, þar sem þau væru með jafnríkan rétt til að taka ákvarðanir um þau.