Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka til efnisumfjöllunar mál Kára Orrasonar og Borys Andrzej Ejryszew sem voru í fyrra sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að óhlýðnast fyrirskipunum lögreglumanna í mótmælaaðgerðum í dómsmálaráðuneytinu árið 2019.

Þeir félagar höfðu sest niður í anddyrinu og krafist fundar með ráðherra um aðbúnað flóttamanna á landinu.

Lögreglumenn gengu inn í anddyri, læstu og handtóku fimm manns úr hópnum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Ég hefði auðvitað viljað að íslenskir dómstólar hefðu metið hærra grundvallarréttindi manns til að mótmæla, en raunveruleikinn er sá að hér hefur 19. grein lögreglulaga ítrekað verið beitt til þess að skerða þessi réttindi,“ segir Kári. Hann vonast til þess að dómur frá Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) geti orðið til þess að ákvæðið verði endurskoðað.

Í kærunni til MDE er byggt á ákvæðum 10. og 11. greinar mannréttindasáttmálans um tjáningarfrelsi og rétt fólks til að safnast friðsamlega saman.

MDE hefur óskað eftir greinargerð frá ríkinu þar sem óskað er eftir afstöðu ríkisins til þess hvort réttindi þeirra hafi verið brotin og hvort íslensk yfirvöld, þar á meðal dómstólar, hafi lagt nægilegt mat á nauðsyn aðgerða gegn mótmælendunum og hvort þær hafi verið í samræmi við reglur um meðalhóf.