Lands­réttur mildaði í dag dóm yfir Sigurði Ragnari Kristins­syni vegna aðildar hans að Skák­sam­bands­málinu. Síðast­liðinn febrúar var Sigurður dæmdur til að fjögurra og hálfs árs fangelsis­vistar í Héraðs­dómi Reykja­víkur. Lands­réttur mildaði í dag refsinguna og var hún þar með stytt niður í þrjú og hálft ár.

Sigurður var í febrúar þessa árs dæmdur fyrir til­raun til að smygla rúm­lega fimm kílóum af am­feta­míni til landsins. Á­stæða þess að refsing hans var milduð er meðal annar að ekki tókst að sanna að Sigurður hafi fjár­magnað fíkni­efna­kaupin sjálfur. Hann hefur á hinn bóginn viður­kennt að hafa borið kostnað af pökkun efnanna og sendingu þeirra til Ís­lands og á þann hátt komið að fjár­mögnun á inn­flutningi þeirra.

Sigurður Ragnar hlaut á stuttum tíma tvo dóma fyrir tvö aðskilin mál.

Játaði brot sitt

Í skýrslu­töku hjá lög­reglu árið 2017 lýsti Sigurður hvernig hann fékk fíkni­efnin af­hent á hótel­her­bergi, þar sem hann vacum­pa­kkaði þeim og kom þeim fyrir inni í tafl­mönnum sem sendir voru á Skák­sam­band Ís­lands.

Spænsk yfir­völd urðu þó vör við fíkni­efnin og var þeim skipt út fyrir gervi­efni áður en þau voru send hingað til lands. Sigurður Ragnar játaði aðild sína að hluta frá upp­hafi en kaus að tjá sig ekki frekar í skýrslu­töku við aðal­með­ferð málsins síðast­liðinn janúar.

Fagnar niður­stöðunni

Verjandi Sigurðar, Hilmar Magnús­son, segir, í sam­tali við Frétta­blaðið, skjól­stæðing sinn að vonum vera á­nægðan með niður­stöðu réttarins. Þá fellur helmingur á­frýjunar­kostnaðar á ríkis­sjóð og hinn helmingur á Sigurð sem er gert að greiða rúm­lega 1,8 milljón í máls­kostnað.

Sú upp­hæð bætist þá að öllum líkindum við þær 137 milljónir sem Sigurði var gert að greiða ríkis­sjóði vegna dóms sem hann hlaut í desember á síðasta ári fyrir stór­fellt skatta­laga­brot. Þá var Sigurður einnig dæmdur í tuttugu mánaða fangelsi vegna þess máls.

Sigurður tjáði sig ekki fyrir dómi.