Landsréttur sneri í dag við dómi héraðsdóms í máli Freyju Haraldsdóttur og Barnaverndarstofu þar sem henni hafði verið meinað að gerast fósturforeldri. Landsréttur felldi þannig úr gildi úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála frá árinu 2016 þar sem Freyju var synjuð heimild um að verða fósturforeldri á grundvelli þess að hún væri ekki við góða heilsu. 

Freyja segir að dómurinn í dag sé bæði fyrir hana persónulegur sigur, en að hann sé einnig mikilvægur fyrir fatlaða foreldra almennt.

„Þetta er fyrir mig persónulega mjög dýrmætt og mikilvægt. Þetta er búið að vera fimm ára ferli,“ segir Freyja Haraldsdóttir í samtali við Fréttablaðið í dag.

Freyja segir að þótt að sigurinn sé mikill persónulega þá sé hann dómurinn einnig mikilvægur í stærra samhengi.

„Það var auðvitað verið að mismuna mér á grundvelli fötlunar auk þess sem mér var ekki veitt réttlát málsmeðferð. Flest getum við verið sammála um að réttlát málsmeðferð eru ótrúlega mikilvæg mannréttindi,“ segir Freyja.

Hún segir að henni finnist dómurinn einnig mikið fagnaðarerindi fyrir fatlaða foreldra og fólk sem nýtir sér notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).

„Barnaverndarstofa vildi meina að vegna aðstoðarinnar gæti ég ekki tengst börnunum því ég væri ekki sjálf að annast þau, sem er misskilningur á hugmyndafræðinni sem býr að baki NPA,“ segir Freyja.

„Niðurlægjandi“ að áætla að börn geti ekki tengst fötluðu fólki

Hún segir að fyrir sig þá finnist henni  dómurinn einnig fagnaðarefni fyrir fósturbörn.

„Af því að það að áætla að fósturbörn geti ekki tengst fötluðu fólki eða geta átt fatlaða foreldra er líka á sinn hátt niðurlægjandi fyrir þau,“ segir Freyja.

„Þannig að á breiðum grunni er þetta ótrúleg mikilvæg niðurstaða, en við auðvitað vitum ekki enn hvort Barnaverndarstofa ætlar að áfrýja til Hæstaréttar. Þannig á meðan getum við kannski talað um áfangasigur. En ég ætla samt að leyfa mér að fagna honum og njóta hans,“ segir Freyja.

Næsta skref að fara á námskeið

Spurð hver næstu skref eru segir hún að næst á dagskrá sé að fá að fara á námskeið þar sem að frekara mat fer fram á umsækjendum sem sækja um að vera fósturforeldrar.

„Núna heldur ferlið vonandi bara áfram. Það hefur verið stöðvað í tvö ár vegna dómsmálsins, en ákvörðun Barnaverndarstofu hefur nú verið felld úr gildi. Ég fer að vinna að því að fara á námskeið og held ótrauð áfram,“ segir Freyja.

Niðurstaða sem þær stefndu að

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður Freyju, segir að þær séu mjög ánægðar með dóminn og að niðurstaðan sé sú sem þær hafi stefnt að.

„Við erum auðvitað mjög ánægð með dóminn. Þetta var niðurstaðan sem við stefndum að og okkur fannst liggja í augum uppi að væri rétt allan tímann,“ segir Sigrún í samtali við Fréttablaðið. 

Hún segir að nú þegar Landsréttur hefur fellt úr gildi þessa höfnun á umsókn hennar að gerast fósturforeldri á þeim grundvelli að hún hafi ekki fengið að sitja námskeið þar sem hæfni er metin þyki henni eðlilegt næsta skref að Freyja sitji námskeiðið og að hæfni hennar til að gerast fósturforeldri verði metin. 

Dóm Landsréttar er hægt að kynna sér hér.