Jón Steinar Gunn­laugs­son, hæsta­réttar­lög­maður og fyrr­verandi hæsta­réttar­dómari, segir niður­stöðu Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu (MDE) „ekkert minna en árás á full­veldi Ís­lands“. Dómur féll í Strass­borg í gær og var komist að þeirri niður­stöðu að skipun Sig­ríðar Á. Ander­sen dóms­mála­ráð­herra á fimm­tán dómurum við Lands­rétt hafi verið and­stæð lögum. 

Jón Steinar gerir dóm MDE að um­fjöllunar­efni í færslu á síðu lög­manns­stofu sinnar, JSG lög­mönnum. Þar fer hann yfir málið, allt frá því að dóms­mála­ráð­herra lagði fram til­lögu sína um skipun dómaranna fimm­tán þar til að þær voru sam­þykktar í þinginu og síðar stað­festar af for­seta Ís­lands. 

Þar hafi á­greiningnum lokið en í kjöl­farið hafi Hæsti­réttur Ís­lands komist að niður­stöðu þess efnis að ann­markar hafi verið á ferlinu. 

„Hæsti­réttur Ís­lands komst að þeirri niður­stöðu að ann­markar sem verið hefðu á skipunar­ferlinum hefðu ekki þær af­leiðingar að skipun þeirra fjögurra dómara, sem ráð­herra gerði til­lögu um en ekki höfðu verið á lista mats­nefndar, teldist ó­gild (dómur 24. maí 2018 í máli nr. 10/2018). Þeir sætu í em­bættum sínum þar til þeim yrði vikið úr þeim með dómi, eins og stjórnar­skráin kveður á um,“ skrifar Jón Steinar. 

Hann segir MDE því næst hafa stigið „inn á sviðið“ með „um­búða­lausri árás á full­veldi Ís­lands“. 

„Svo sem að framan er lýst hafa þær stofnanir hér innan­lands sem um ræðir komist að niður­stöðu um að dómarinn sé rétti­lega skipaður í em­bætti með þeim hætti að honum verði ekki komið úr því nema með dómi. Þær hafa líka komist að þeirri niður­stöðu, sem MDE reyndar vé­fengir ekki, að maðurinn hafi hlotið rétt­láta máls­með­ferð. Hvað er dómurinn þá að vilja? Hvað kemur honum við skipun dómarans sem allar ís­lenskar valda­stofnanir hafa stað­fest að sé gild?“ spyr Jón Steinar. 

Hann biður fólk að taka höndum saman um að „hrinda þessari að­för sem Ís­land hefur nú sætt frá er­lendri stofnun sem blygðunar­laust sækir sér vald sem hún fer alls ekki með“. 

„Þeir ættu að sýna stærð með því að sam­einast til varnar fyrir full­veldi landsins í stað þess að hjakka í fari síður merki­legra deilna innan­lands,“ skrifar hann að lokum.