Viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Landsréttarmálinu verða eina dagskrármálið á fundi Alþingis í dag. Um munnlega skýrslu forsætisráðherra er að ræða.

Frá því að MDE komst að því að skipan dómara í Landsrétt hefði ekki verið í samræmi við 6. gr. Mannréttindasáttmálans hefur mikil umræða verið um hvernig sé rétt að bregðast við dómnum. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur komið fram vilji til að kæra málið áfram til yfirdeildar MDE. Aðrir vilja una dómnum og grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari réttaróvissu.

„Það eru hagsmunir almennings í landinu að dómskerfið starfi með eðlilegum hætti og að hinn nýi áfrýjunardómstóll, Landsréttur, hangi ekki í lausu lofti. Áfrýjun til yfirdeildar gerir ekkert annað en framlengja óvissuna og magna upp það hörmungarástand sem skapast hefur,“ segir Sveinn Andri Sveinsson lögmaður í aðsendri grein í blaðinu í dag.