Endurupptökunefnd hefur fallist á beiðni Magnúsar Arnars Arngrímssonar um endurupptöku dóms Hæstaréttar frá 3. desember 2015 en með dóminum var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir umboðssvik meðan hann gegndi starfi hjá Glitni.

Forsendur endurupptöku málsins eru fjárhagslegir hagsmunir Markúsar Sigurbjörnssonar, eins dómara málsins í Hæstarétti, en Markús tapaði tæplega átta milljónum á falli Glitnis árið 2008.

Í niðurstöðu endurupptökunefndar segir að „í ljósi þeirra fjármuna sem fóru forgörðum hjá dómaranum voru atvik og aðstæður með þeim hætti að endurupptökubeiðandi mátti hafa ástæðu til að draga óhlutdrægni dómstólsins með réttu í efa.“

Sendi einn tölvupóst

Í sakamálinu sem um ræðir var Magnúsi og öðrum sakborningum gefið að sök að hafa framið umboðssvik með því að hafa í störfum sínum fyrir Glitni banka hf. 12. nóvember 2007 farið út fyrir umboð sitt til lánveitinga fyrir hönd bankans með lánveitingu til félagsins BK-44. Í málinu lá aðeins fyrir eitt gagn sem tengdi Magnús við málið. Það var tölvupóstur sem sem hann sendi, með orðsendingunni: „Ég er kominn með samþykki fyrir PM mörkum á BK-44 ehf, kt. 620200-2120, upp á 4ma. kr. í 6 mánuði.“

Við rannsókn málsins og fyrir dómi kom fram af hálfu Magnúsar að með póstinum hafi hann ekki verið að gefa leyfi fyrir umræddri lánveitingu heldur eingöngu verið að bera þau skilaboð á milli að leyfi hafi verið veitt. Magnús bar að annar tveggja yfirmanna hans hefði veitt heimildina, hann myndi ekki hvor þeirra. Vitni sem gáfu skýrslu fyrir dómi, þar á meðal báðir yfirmenn Magnúsar, voru á einu máli um að hann hafi ekki veitt heimildina sjálfur heldur aðeins borið á milli skilaboð þess efnis að hún hafi verið heimiluð.

Telur sönnunarbyrði snúið við

Í endurupptökubeiðni Magnúsar er meðal annars vísað til greinar í The Financial Times þar sem haft er eftir sérstökum saksóknara að mikilvægt hafi verið að gera starfsmönnum bankanna ljóst að ef þeir gætu ekki bent á þá sem bæru ábyrgðina, yrði þeim sjálfum kennt um. Þá er vísað til þeirrar forsendu fyrir sakfellingardómi Hæstaréttar að Magnús hafi á engan hátt upplýst frá hverjum hann átti að hafa fengið fyrirmæli um að senda tilkynningu um samþykki umræddrar lánveitingar.

Með þessu telur Magnús að sönnunarbyrðinni hafi verið snúið við, í andstöðu við rétt sinn til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð og þá grundvallarreglu sakamálaréttarfars að ákæruvaldið beri sönnunarbyrði um sekt þess sem ákærður er.

Í forsendum sínum vísaði endurupptökunefnd bæði til fyrri niðurstöðu Hæstaréttar um endurupptöku mála Sigurjóns Árnasonar og Sigríðar Elínar Vigfúsdóttur og til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Sigríðar Elínar þar sem fallist var á að fjárhagslegir hagsmunir dómara sem dæmdi mál hennar í Hæstarétti yllu því að hún gæti ekki treyst því að njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir óvilhöllum dómstól.

Styrkleiki dómstóls að viðurkenna mistök

„Það sjónarmið sem býr að baki þessari endurupptöku er einfalt, skjólstæðingur minn er saklaus,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Magnúsar. Hann segir Magnús hafa verið ranglega dæmdan og fyrir það hafi hann afplánað þungan dóm sem hann hafi aldrei átt að hljóta.

Skjólstæðingur minn er saklaus.

Páll telur útilokað annað en að dómurinn verði leiðréttur með nýjum dómi og skjólstæðingur hans verði sýknaður. „Það ber að sýkna þá saklausu og skiptir þar engu máli að dómstóllinn þurfi að horfast í augu við mistök sín. Dómstóll sem horfist í augu við mistök sín sýnir styrkleika sinn, ekki veikleika,“ segir Páll Rúnar.

Elín og Sigurjón voru bæði sakfelld í Hæstarétti fyrir markaðsmisnotkun árið 2016 en með þeim dómi var sýknudómi héraðsdóms snúið við og þau bæði sakfelld og dæmd til fangelsisvistar, Sigurjón í þrjú og hálft ár en Elín í átján mánuði.

Mál Elínar og Sigurjóns bíða nýrrar meðferðar

Endurupptökunefnd féllst á beiðnir þeirra um endurupptöku með vísan til þess að draga mætti óhlutdrægni dómarans Viðars Más Matthíassonar í efa vegna umtalsverðrar hlutafjáreignar hans í Landsbankanum sem tapaðist við fall bankans árið 2008.

Nýir dómar í málum Elínar og Sigurjóns hafa enn ekki verið kveðnir upp í Hæstarétti en Hæstiréttur hafnaði frávísunarkröfu ákæruvaldsins 27. maí síðastliðinn.