Dómur verður kveðinn upp í Bitcoin-málinu í Héraðsdómi Reykjaness síðdegis í dag. Sjö eru ákærðir í málinu fyrir aðild að stórfelldum þjófnaði úr þremur gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarnesi í desember 2017 og janúar 2016, auk tveggja þjófnaðartilrauna. 

Meintur höfuðpaur málsins, Sindri Þór Stefánsson, játaði við aðalmeðferð málsins aðild að þjófnaði úr gagnaveri í Borgarnesi og gagnaveri Advania á Reykjanesi. Hann neitaði hins vegar að hafa skipulagt og lagt á ráðin um brotin. Félagi Sindra, Matthías Jón Karlsson, sem er, auk Sindra Þórs, ákærður fyrir alla þjófnaðina og tilraunirnar, breytti einnig afstöðu sinni að hluta, og játaði að hafa farið inn í gagnaver Advania í Reykjanesbæ, en neitaði að hafa undirbúið, lagt á ráðin og skipulagt bæði þann þjófnað og önnur brot sem talin eru upp í ákæru.

Fimm eru að auki ákærðir í málinu. Þeirra á meðal er fyrrverandi starfsmaður öryggisþjónustu gagnaversins í Reykjanesbæ.

Refsing fyrir þjófnað getur að hámarki verið sex ára fangelsi og fer ákæruvaldið fram á 5 ára fangelsi í tilviki Sindra Þórs Stefánssonar, þriggja ára fangelsi fyrir Matthías og Hafþór Loga Hlynsson og tveggja ára fangelsi fyrir Pétur Stanislav Karlsson og Viktor Inga Jónasson. Allir þrír síðastnefndu neituðu sök við aðalmeðferð málsins. Þá fer ákæruvaldið fram á tveggja ára fangelsisdóm yfir öryggisverðinum Ívari Gylfasyni sem einnig neitaði sök.