Karlmaður var sakfelldur í Landsrétti í dag fyrir að nauðga fyrrverandi unnustu sinni á heimili hans. Landsréttur staðfesti að þessu leyti dóm héraðsdóms yfir manninum en ákvað hins vegar að skilorðsbinda átján mánaða fangelsisrefsingu yfir manninum.

Byggir Landsréttur á því að brot mansins sé alvarlegt en hins vegar hafi orðið dráttur á málinu sem dómfellda verði ekki kennt um vegna þess dráttar þyki rétt að skilorðsbinda refsinguna.

Þá er hinum gert að greiða brotaþola 1,2 milljónir í miskabætur.

Gafst upp og lét undan

Málavöxtum er lýst þannig í dómi héraðsdóms að brotaþoli hafi hitt manninn á heimili hans í janúar 2015. Þau hafi haft samfarir og farið svo út að skemmta sér og haft aftur samfarir á heimili hans síðar um nóttina.

Brotaþoli kvaðst hafa sofnað en ákærði hafi þá farið að reyna að koma henni úr nærbuxum. Hún hafi streist á móti og sagt honum að hún vildi ekki meira kynlíf.

Hann hafi ekki gefið sig og hún hafi á endanum gefist upp og látið undan vilja hans. Hún sofnaði svo og vaknaði aftur við að hann var byrjaður á ný.

„Og á einhverjum tímapunkti, man ekki hvort það var í fyrra eða seinna skiptið allavega að ég fer að gráta, fer bara að gráta af sársauka og svo þegar hann er búinn þá fer ég bara inn á bað og græt þar og fer svo aftur að sofa,“ segir í skýrslu brotaþola.

Brotaþoli leitaði á neyðarmóttöku daginn eftir og við skoðun þar koma í ljós áverkar sem renna stoðum undir framburð hennar.

SMS skilaboð ákærða skiptu sköpum

Meðal sönnunargagna í málinu voru sms skilaboð ákærða til konunnar og skiptu þau sköpum um sakfellinguna, auk skýrslu læknis um áverka á konunni.

Skilaboðin eru birt í dóminum en þau voru svohljóðandi:

„Mig Langar ad spjalla adeins eftir thetta. eg vill saettast og eg vona thu getir fyrirgefid mer en mer thykir vaent um thig samt og vill allt besta fyrir thig ef thu vilt tala vid mig, hringiru bara ef ekki tha respecta eg tad og segji bara bless. i guess. tad er omurlega leidinlegt ad missa vin eins og thig utaf thessu. 🙁 … mer fannstthessii helgi mestaskemtunn semegg hef gertII langantimaa enegg var samt ofakafurrviddthiggtharnaaii endann ogegg veittaddogmigg langaraddbaetaatherrtadd uppehvveginnnIIstadinn fyriraddhaettaa talaviddthigg bara…“

Í héraðsdómi segir að skilaboðin hafi borið með sér að eitthvað alvarlegt hefði átt sér stað og voru þau talin veita ákærunni verulega stoð þar sem karlmaðurinn hefði verið að svara skilaboðum konunnar. Hann hafi aldrei hafnað fullyrðingum hennar þess efnis að um nauðgun hefði verið að ræða.