Áfrýjunardómstóll í Texas hefur fallist á beiðni hinnar bandarísku Melissu Lucio og slegið aftöku hennar af, en taka átti Melissu af lífi á miðvikudaginn fyrir morð.
Það var niðurstaða áfrýjunardómsins í dag að fela undirrétti að fara yfir ný sönnunargögn um sakleysi Melissu áður en frekar verður aðhafst í máli hennar.
Fréttablaðið fjallaði ítarlega um mál Melissu fyrir nokkru og ræddi við Gísla Guðjónsson réttarsálfræðing sem veitt hefur verjendateymi hennar sérfræðiaðstoð.
Gísli er einn fremsti sérfræðingur heims á sviði áreiðanleika játninga og hefur 40 ára reynslu af sálfræðilegu mati á framburði vitna, þolenda og sakborninga í yfir 1.000 málum víða um heim.
Þegar Melissa fékk tilkynningu um dagsetningu aftökunnar hafði verjendateymi hennar samband við Gísla og bað hann um aðstoð. Í beiðni til ríkisstjóra Texas var svo farið fram á að aftökunni yrði frestað eða hún stöðvuð. Meðal lykilgagna í beiðninni var sérfræðiálit Gísla. Í því kemur fram það mat hans að meint játning sem sakfelling Melissu byggði á, sé óáreiðanleg og mjög áhættusamt sé að taka nokkuð mark á henni.
Líklega slys en ekki ill meðferð
Í febrúar 2007 lést tveggja ára dóttir Melissu. Hún vaknaði ekki eftir síðdegislúrinn sinn. Böndin bárust strax að móður hennar, en barnið var marið víða um líkamann. Melissa var handtekin tveimur tímum eftir að bráðaliðar voru kallaðir að heimilinu vegna andláts barnsins. Fimm lögreglumenn hófu strax yfirheyrslu sem tók á bilinu fimm til sjö klukkustundir.
Í yfirheyrslunni neitaði Melissa ítrekað að hafa lagt hendur á barnið og valdið dauða þess. Lögreglumennirnir beittu miklum þrýstingi en hún hafði ekki lögmann sér til halds og trausts. Að lokum gafst hún upp og sagði: „Ætli ég hafi ekki gert þetta þá, ég ber ábyrgð á þessu.“
Þessi orð Melissu voru túlkuð sem játning og árið 2008 sakfelldi kviðdómur í Texas hana fyrir morð og dæmdi hana til dauða.

Melissa og fjölskylda hennar hafa beðið í 15 ár milli vonar og ótta um að lífi hennar verði þyrmt.
Melissa fær annað tækifæri
Áfrýjunardómstóllinn sem úrskurðaði um málið í dag telur Melissu hafa lagt fram næg rök fyrir fimm af níu málsástæðum fyrir því að málið verði endurskoðað.
Í fyrsta lagi að sækjandinn i málinu hafi notað falskan framburð og án hans hefði kviðdómur ekki sakfellt hana; sönnunargögn sem ekki voru tiltæk á sínum tíma, hefðu komið í veg fyrir sakfellingu hennar hefði þekking um þau verið fyrir hendi, að hún sé saklaus og að ríkið hafi haldið mikilvægum sönnunargögnum frá kviðdómi í andstöðu við alríkislög í landinu.
Melissa sendi frá sér stutta yfirlýsingu eftir að áfrýjunardómstóllinn tilkynnti niðurstöðu sína.
„Ég er þakklát fyrir að fá fleiri daga til að vera móðir barnanna minna og amma barnabarnanna“
„Ég þakka guði fyrir líf mitt og er þakklát dómstólnum fyrir að gefa mér tækifæri til að lifa og sanna sakleysi mitt. Mariah er í hjarta mínu í dag og ávallt. Ég er þakklát fyrir að fá fleiri daga til að vera móðir barnanna minna og amma barnabarnanna. Ég er full þakklætis þeim sem hafa beðið fyrir mér og tjáð sig fyrir mína hönd.“
Þrýstingur á dómstóla og einkum ríkisstjóra Texas hefur aukist mjög undanfarna daga og hefur hann komið úr öllum áttum. Þannig vildi meirihluti öldungadeildar ríkisþingsins í Texas láta fresta eða aflýsa aftökunni og fjöldi stórstjarna hafa einnig tjáð sig um mál hennar á samfélagsmiðlum undanfarna daga og vikur.
Ákvörðun dómstólsins er því fagnað mjög víða í dag. Ekki aðeins meðal fjölskyldu hennar og nánustu vina heldur einnig allra þeirra sem hafa látið sig mál hennar varða. Hægt er að fylgjast með umræðunni um mál hennar undir millumerkinu #fr
Just received word the Texas Court of Criminal Appeals has granted a stay of #MelissaLucio’s execution - remanding vital issues back to the trial court and securing justice for Melissa and for Mariah and the entire Lucio family. Praise God! #txlege pic.twitter.com/lzfWaEe7TH
— Jeff Leach (@leachfortexas) April 25, 2022