Á­frýjunar­dóm­stóll í Texas hefur fallist á beiðni hinnar banda­rísku Melissu Lucio og slegið af­töku hennar af, en taka átti Melissu af lífi á mið­viku­daginn fyrir morð.

Það var niður­staða á­frýjunar­dómsins í dag að fela undir­rétti að fara yfir ný sönnunar­gögn um sak­leysi Melissu áður en frekar verður að­hafst í máli hennar.

Frétta­blaðið fjallaði ítar­lega um mál Melissu fyrir nokkru og ræddi við Gísla Guð­jóns­son réttar­sál­fræðing sem veitt hefur verj­enda­t­eymi hennar sér­fræði­að­stoð.

Gísli er einn fremsti sér­fræðingur heims á sviði á­reiðan­leika játninga og hefur 40 ára reynslu af sál­fræði­legu mati á fram­burði vitna, þol­enda og sak­borninga í yfir 1.000 málum víða um heim.

Þegar Melissa fékk til­kynningu um dag­setningu af­tökunnar hafði verj­enda­t­eymi hennar sam­band við Gísla og bað hann um að­stoð. Í beiðni til ríkis­­stjóra Texas var svo farið fram á að af­tökunni yrði frestað eða hún stöðvuð. Meðal lykil­­gagna í beiðninni var sér­­­fræði­á­lit Gísla. Í því kemur fram það mat hans að meint játning sem sak­felling Melissu byggði á, sé ó­á­reiðan­leg og mjög á­hættu­samt sé að taka nokkuð mark á henni.

Lík­lega slys en ekki ill með­ferð

Í febrúar 2007 lést tveggja ára dóttir Melissu. Hún vaknaði ekki eftir síð­­degis­lúrinn sinn. Böndin bárust strax að móður hennar, en barnið var marið víða um líkamann. Melissa var hand­­tekin tveimur tímum eftir að bráðaliðar voru kallaðir að heimilinu vegna and­láts barnsins. Fimm lög­­reglu­­menn hófu strax yfir­­heyrslu sem tók á bilinu fimm til sjö klukku­­stundir.

Í yfir­heyrslunni neitaði Melissa í­trekað að hafa lagt hendur á barnið og valdið dauða þess. Lög­­reglu­­mennirnir beittu miklum þrýstingi en hún hafði ekki lög­mann sér til halds og trausts. Að lokum gafst hún upp og sagði: „Ætli ég hafi ekki gert þetta þá, ég ber á­byrgð á þessu.“

Þessi orð Melissu voru túlkuð sem játning og árið 2008 sak­­felldi kvið­­dómur í Texas hana fyrir morð og dæmdi hana til dauða.

Börn Melissu báru vitni um að þau hefðu séð litlu systur sína detta niður þennan stiga tveimur dögum áður en hún lést. Talið er að áverkar hennar gætu hafa komið við fallið.

Melissa og fjöl­skylda hennar hafa beðið í 15 ár milli vonar og ótta um að lífi hennar verði þyrmt.

Melissa fær annað tæki­færi

Á­frýjunar­dóm­stóllinn sem úrskurðaði um málið í dag telur Melissu hafa lagt fram næg rök fyrir fimm af níu máls­á­stæðum fyrir því að málið verði endur­skoðað.

Í fyrsta lagi að sækjandinn i málinu hafi notað falskan fram­burð og án hans hefði kvið­dómur ekki sak­fellt hana; sönnunar­gögn sem ekki voru til­tæk á sínum tíma, hefðu komið í veg fyrir sak­fellingu hennar hefði þekking um þau verið fyrir hendi, að hún sé sak­laus og að ríkið hafi haldið mikil­vægum sönnunar­gögnum frá kvið­dómi í and­stöðu við al­ríkis­lög í landinu.

Melissa sendi frá sér stutta yfir­lýsingu eftir að á­frýjunar­dóm­stóllinn til­kynnti niður­stöðu sína.

„Ég er þakk­lát fyrir að fá fleiri daga til að vera móðir barnanna minna og amma barna­barnanna“

„Ég þakka guði fyrir líf mitt og er þakk­lát dóm­stólnum fyrir að gefa mér tæki­færi til að lifa og sanna sak­leysi mitt. Mariah er í hjarta mínu í dag og á­vallt. Ég er þakk­lát fyrir að fá fleiri daga til að vera móðir barnanna minna og amma barna­barnanna. Ég er full þakk­lætis þeim sem hafa beðið fyrir mér og tjáð sig fyrir mína hönd.“

Þrýstingur á dóm­stóla og einkum ríkis­stjóra Texas hefur aukist mjög undan­farna daga og hefur hann komið úr öllum áttum. Þannig vildi meiri­hluti öldunga­deildar ríkis­þingsins í Texas láta fresta eða af­lýsa af­tökunni og fjöldi stór­stjarna hafa einnig tjáð sig um mál hennar á sam­fé­lags­miðlum undan­farna daga og vikur.

Ákvörðun dómstólsins er því fagnað mjög víða í dag. Ekki aðeins meðal fjölskyldu hennar og nánustu vina heldur einnig allra þeirra sem hafa látið sig mál hennar varða. Hægt er að fylgjast með umræðunni um mál hennar undir millumerkinu #fr