Starfsemi dómstóla liggur að miklu leyti niðri á morgun vegna óveðurs. Skrifstofa Landsréttar verður lokuð fyrir hádegi og dómarar við héraðsdómstóla bæði Reykjavíkur og Reykjaness hafa frestað bæði aðalmeðferðum mála og fyrirtökum. Ekki er þó um eiginlega lokun dómstólanna að ræða og verður þeim sem mæta eiga í þinghöld tilkynnt um frestun.

Talsverðar raskanir verða á þjónustu á höfuðborgarsvæðinu á morgun. Rauð veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið frá kl. 7 í fyrramálið sem þýðir að fólk á ekki að vera á ferðinni nema brýna nauðsyn beri til. 

Allt skólahald í leikskólum og grunnskólum Reykjavíkurborgar fellur niður á morgun. Sama gildir um kennslu við HÍ og HR. Skólabyggingum leikskóla og grunnskóla verður haldið opnum til að tryggja að yngstu börn starfsmanna í neyðarþjónustu fái lágmarksþjónustu.

Strætó mun ekki ganga á höfuðborgarsvæðinu.

Lágmarksstarfssemi verður á heilgæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu fram að hádegi á morgun í samræmi við tilmæli Almannavarna. „Hafið samband við stöðvarnar til að færa bókaða tíma. Við munum leggja okkur fram um að leysa það sem best.“ Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Heilsugæslunnar.