Dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen hefur boðað blaðamannafund í dómsmálaráðuneytinu klukkan 14.30 í dag. Ríkisstjórnarflokkar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna komu, hvor í sínu lagi, saman á þingflokksfundi í Alþingishúsinu nú klukkan 13. Enginn ráðherra eða þingmanna vildi tjá sig um niðurstöðu MDE að svo stöddu.
sjá einnig: Tjá sig ekki að svo stöddu
Í gær var birt niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu vegna skipunar Sigríðar Á. Andersen á dómurum við Landsrétt og komst að því að með skipuninni hafi hún brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Íslenska ríkið er bótaskylt vegna málsins. Kallað hefur verið eftir afsögn Sigríðar.
Þá mun ríkisstjórnin funda klukkan 16 í dag en fundur hennar átti að fara fram í gær. Honum var hins vegar frestað þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York en hún kom hingað til lands í morgun.
Fréttablaðið mun greina frá blaðamannafundinum að honum loknum.