Fjalar Sigurðarson, upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins, vildi ekki tjá sig um yfirlýsingu Maríu Sjafnar Árnadóttur vegna ummæla ráðuneytisins í umfjöllun CNN um mál hennar gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

„Dómsmálaráðuneytið er ekki að reka þetta mál. Það er ríkislögmaður og auðvitað er þetta mál sem á uppruna sinn hjá ríkissaksóknara.

Við ætlum ekki að fara kommenta á viðbrögð fólks við dómsmáli eða álit ríkislögmanns á dómsmáli,“ segir Fjalar í samtali við Fréttablaðið.

Lögfræðilegt úrlausnarefni

Fjalar segir CNN hafa óskað eftir svörum frá ráðuneytinu vegna umfjöllun sinnar um mál Maríu og fleiri kvenna. Ráðuneytið hafi orðið við beiðni þeirra og sent skrifleg svör á ensku til þeirra um málið.

Að sögn Fjalars hafi hann aldrei sest niður átt samtal við blaðamann CNN heldur hafi ráðuneytið sent formlegt svar við fyrirspurnum þeirra.

Fjalar segir rökstuðning um alvarleika málsins í svari ráðuneytisins koma frá ríkislögmanni.

„Þetta er bara klárt lögfræðilegt úrlausnarefni og það er enginn sem mun skera úr um það nema dómstóllinn á endanum.“

Málið sé hugsanlegt dómsmál fyrir Mannréttindadómstóli og að það eigi eftir að koma í ljós hvað kemur út úr því.

Óvissa um ákærur

Samkvæmt skriflegum svörum ráðuneytisins sem send voru til blaðamanns CNN, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er farið yfir dómsmál Mannréttindadómstólsins að beiðni blaðamanns.

Þar segir meðal annars, líkt og fram kemur í umfjöllun CNN, að íslensk stjórnvöld viðurkenni mistök við rannsókn málsins sem varð til þess að því var vísað frá vegna fyrningarfrests.

Ástæða tafarinnar hafi verið að óvissa um hvaða ákærur ætti að höfða í málinu. Slík óvissa sé sjaldséð og að mál falli niður í umsjá lögreglu sé algjör undantekning í meðferð sakamála á Íslandi.

Rannsókn á máli Maríu hafi verið skilvirk frá upphafi á meðan lögreglan safnaði saman skýrslum og sönnunargögnum til að vita hvaða ákæru ætti að bera upp í yfirheyrslum við ákærða, þar sem það hafi verið óljóst.

Málið tekið alvarlega

Þegar því hafi verið komið á hreint var ljóst að ásakanirnar vörðuðu minniháttar líkamsárás samkvæmt almennum hegningarlögum með refsiramma allt að eins árs fangelsi og fyrningu til tveggja ára og því hafi málið verið látið falla niður.

„Þetta sýnir að málið var tekið alvarlega innan réttarkerfisins,“ segir í svarinu.

Blaðamaður CNN spyr ráðuneytið einnig hver viðbrögð þeirra séu við ásökunum. Ráðuneytið svarar að þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi komist að þeirri niðurstöðu að ákveðin mistök hafi verið gerð við rannsóknina sé það álit stjórnvalda að mistökin uppfylli ekki lágmarks alvarleikastig til að falla undir gildissvið greina þrjú og átta í Mannréttindasáttmála Evrópu.