Vantrauststillaga Svíþjóðardemókrata sem beint var að Morgan Johansson, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, var felld fyrr í dag eftir atkvæðagreiðslu um tillöguna sem lögð var fram í síðustu viku. Atkvæðagreiðslan vakti athygli vegna þess að Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, tilkynnti það að ríkisstjórnin myndi öll segja af sér ef vantrauststillagan yrði samþykkt.
„Ef þið viljið fella ráðherra út af pólitískum skoðunum hans, eruð þið að fella ríkisstjórnina í leiðinni,“ sagði Magdalena Andersson forsætisráðherra Svíþjóðar á blaðamannafundi eftir atkvæðagreiðsluna.
Það lá mjótt á munum en þeir flokkar sem kusu með tillögunni hafa 174 sæti á Riksdag, sænska þinginu. 175 manns, sem er minnsti meirihluti á þinginu, þurfa að kjósa með tillögunni til þess að fella ráðherra. 97 manns kusu á móti henni, 70 sátu hjá og 8 voru fjarverandi.
Johansson hefur orðið skotmark stjórnarandstæðinga á undanförnum árum vegna aukningu í tíðni byssuglæpa í sænskum borgum. Glæpagengi í Stokkhólmi, Gautaborg og Malmö hafa verið í brennidepli fjölmiðla síðustu vikur og mánuði en lögreglan hefur ekki náð að ráða niðurlögum þeirra.
Johansson tók við embætti árið 2014 og hefur setið við völd síðan þá. Hann er sagður vera einn af lykilráðherrum Sósíaldemókrata og ríkisstjórnarinnar.
Sérfræðingar sögðu úrslitaatkvæðið hafa legið hjá Amineh Kakabaveh, óháðum þingmanni sem áður var þingmaður Vinstriflokksins. Hún gaf út fyrr í morgun að hún myndi sitja hjá í atkvæðagreiðslunni. Með henni höfðu ríkisstjórnin 175 manna meirihluta í atkvæðagreiðslunni.