Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, mun mælast fyrir því að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, taki fyrir ásakanir um að þjóðfélagsstaða hafi áhrif á meðferð sakamála og sérstaklega kynferðisbrota.

Þorbjörg Inga Jónsdóttir lögmaður segir í Fréttablaðinu í dag að hvítur karl í fínum jakkafötum fái betri framgang hjá lögreglu en aðrir. Þorbjörg hefur í tuttugu ár sinnt réttargæslu fyrir mikinn fjölda kvenna sem kært hafa kynferðisbrot og segir hún engan vafa leika á að kerfið fari í manngreinarálit eftir þjóðfélagsstöðu.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sem sinnti áður réttargæslu fyrir þolendur, sagði á Facebook í morgun að það sem Þorbjörg sagði væri kórrétt og samræmdist hennar upplifun úr kerfinu. Þetta er ekki í fyrsta sinn á stuttum tíma sem ásakanir af þessum toga koma upp, faðir stúlku grunur var að hefði verið brotið á sakaði lögreglu um að láta stöðu meints geranda hafa áhrif á sig. Meintur gerandi var lektor við lagadeild Háskóla Íslands, mál hans var látið niður falla.

Áslaug Arna var spurð út í málið í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun.

„Ég hef ekki séð erindið sjálft hjá þessum lögmanni en þetta eru mjög alvarlegar ásakanir. Þetta kallar á skýringar frá lögreglunni, augljóslega. Það má auðvitað aldrei vera þannig að þjóðfélagsstaða eða einhverjar aðrar aðstæður gerenda eða þolenda hafi einhver áhrif. Ekki bara úrslitaáhrif, heldur bara einhver áhrif á meðferð sakamála. Einkum varðandi kynferðisbrotin,“ sagði Áslaug Arna.

„Mér þykir mjög miður ef sú er raunin og ég mun mælast til þess að Ríkislögreglustjóri taki þessi mál fyrir á næsta fundi lögregluráðs. Ráðið hittist nú einu sinni í mánuði og er mjög mikilvægur samráðsvettvangur allra lögreglustjóra í landinu og það verði hrundið af stað einhverri vinnu við að bregðast við slíkum ábendingum og aðfinnslum. Þau auðvitað svara ef þetta er ekki með þeim hætti en líka kanna hvar er pottur brotinn og hvernig verður best að því staðið með fræðslu og leiðbeiningum til rannsakenda í kynferðisbrotamálum.“

Hún segir að málum hafi fjölgað mikið en það sé einnig búið að fjölga mannskap til að sinna þeim. „Ég hef verið að beina því til að það þurfi að hraða málsmeðferðinni í þessum málum. Þetta er óásættanlegur málsmeðferðartími.“

Þarf að skoða verklag vegna byrlana

Áslaug Arna var einnig spurð út í byrlanir en hávær umræða er um byrlunarfaraldur á skemmti­stöðum í Reykjavík.

Áslaug Arna segir að taka þurfi mjög hart á slíkum málum, um sé að ræða frelsisviptingu.

„Þetta er auðvitað mjög alvarleg háttsemi og hefur verið skoðað með reglulegum hætti hvort það þurfi að bregðast við í löggjöfinni. Ég held að núna þurfum við að skoða verklagið. Löggjöfin tekur ágætlega á þessu, en það þarf auðvitað alltaf að skoða hegningarlögin í takti við tímann, hvort sem það eru breytingar á kynferðislegri friðhelgi eða umsáturseinelti sem tekur betur á þeirri háttsemi sem við erum að sjá í samfélaginu okkar. Í dag ætti þetta að falla undir ýmis ákvæði hegningarlaganna meðal annars 220. grein sem segir að hver sem kemur manni í það ástand að hann sé án bjargar getur sætt fangelsi í allt að átta árum. Vandinn við þessi brot tengist rannsókninni, sönnunarfærsluna, hver er gerandinn, að leita að réttu efni þegar próf er tekið og að fólk hafi aðgengi að því að fara í þessi próf.“

Áslaug svarar því játandi hvort það þurfi mynd af viðkomandi að byrla. „Það þarf auðvtiað að sanna hver byrlaði, svo þarf fólk að leita til læknis til að fara í blóð- og þvagprufu innan þess tíma sem hægt er að mæla þessi efni. Svo breytast þessi efni. Það breytast frá ári til árs hvað er verið að nota.“